Elísa Kristinsdóttir í hópi tíu bestu bakgarðshlaupara heims
Norðfirðingurinn Elísa Kristinsdóttir endaði önnur í Bakgarðshlaupinu í vor eftir að hafa hlaupið 56 hringi eða alls 375 kílómetra á 56 klukkustundum. Sú frammistaða kemur Elísu á listann yfir 10 bestu bakgarðskonur í heiminum, en slík hlaup fara fram víða um heiminn ár hvert.Hlaupið er ýmist kallað Bakgarðshlaupið eða Náttúruhlaupið, en slík hlaup fara fram tvisvar sinnum ár hvert á höfuðborgarsvæðinu. Fyrra hlaupið fer fram fyrstu helgina í maí í Öskjuhlíðinni og hið seinna í Heiðmörk í september.
Bakgarðshlaupið fer eftir hefðbundnu sniði og reglum bakgarðshlaupa (e. Backyard Ultra) sem er með því móti að keppendur hlaupa rúmlega 6,7 kílómetra hring á hverri klukkustund. Sá keppandi sem hleypur flesta hringi eða sá sem klárar síðasta hringinn einn stendur uppi sem sigurvegari hlaupsins. Hver hringur hefst á heila tímanum en eftir hvern hring má nota tímann sem eftir er til hvíldar og undirbúnings fyrir næsta hring.
Hlaupið fór fram fyrstu helgina í maí og hófst á laugardeginum klukkan 09:00 og lauk á mánudeginum um klukkan 18:00, þegar sigurvegarinn Mari Järsk kláraði síðasta hringinn. Mari og Elísa hlupu því dag og nótt, dag og nótt, og svo aftur dag.
Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Elísa keppir í ofurhlaupi líkt og Bakgarðshlaupinu, heldur er þetta fjórða skiptið hennar. Elísa tók þátt í sínu fyrsta ofurhlaupi árið 2022, skráði sig svo í markvissa hlaupaþjálfun ári eftir það og hefur ekki litið til baka síðan þá.
Skiptir máli að hvílast í hléum
Í svona löngum hlaupum er að mörgu að huga og keppendur fá oft aðeins örfáar mínútur í pásu á milli hringja svo mikilvægt er að nýta þær sem best. Elísa nýtti sínar pásur fyrst og fremst í að nærast, drekka og hvílast. „Svo eru aðstoðarskvísurnar mínar að huga að blöðrum ef þær eru, nudda og hreyfa við fótunum ásamt öðru sem þarf að huga að.“
Elísa hljóp í rúma tvo sólarhringa og svaf lítið sem ekkert á þeim tíma. „Ég náði að sofna kannski í eina eða tvær mínútur yfir þennan tíma. Ég náði samt að hvílast vel í pásunum sem skiptir öllu máli.“ Þegar keppendur hafa lokið við tíu hringi í hlaupinu er þeim heimilt að kalla til aðstoðarmann, sem í tilfelli Elísu var systir hennar, Eva, sem var ein af þeim sem skipulagði pásurnar hennar Elísu, hjálpaði henni að nærast og hlúði að fótunum.
Að hafa trú á markmiðinu
Hin venjulega manneskja spyr sig ef til vill að því hvað fái manneskjur eins og Elísu til þess að ná svona mögnuðum árangri. Hún segir að til þess að komast svona langt sé mikilvægt að trúa á sín eigin markmið. „Fyrst og fremst verður þú að vilja þetta nægilega mikið og hafa 100% trú á því að þú getir náð þínum markmiðum. Ef þú vilt eitthvað nægilega mikið þá trúi ég því að allir geti náð sínum markmiðum hvort sem það tengist hlaupum eða ekki.“
Aðspurð að því hvað fari í gegnum hugsann þegar hlaupið sé bæði dag og nótt, segir Elísa að það sé bæði upp og niður. „Fyrstu 100 kílómetrana er maður bara í hlaupapartýi, að spjalla við allt fólkið og draga að sér þessa góðu orku sem er í brautinni. Yfir nóttina hlusta ég á tónlist, hlaðvarp eða góða sögu. Þegar ég fer í djúpa dali þá hugsa ég hvað hlaupin gefa mér mikið og hversu þakklát ég er fyrir að geta tekið þátt í því sem ég elska að gera. Ég hugsa líka um þau hlaupa afrek sem vinkonur mínar hafa náð og reyni að finna gleðina á ný.“
Bakgarðshlaup á Austurlandi
Laugardaginn 14. september mun Eyrin heilsurækt standa fyrir bakgarðshlaupi á Reyðarfirði. Ágóði þátttökugjalda rennur til Birtu – landssamtaka foreldra sem skyndilega hafa misst börn sín. Boðið verður upp á prufuhring þann 25. ágúst.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.