Ellefu gul spjöld í Austfjarðaslag - Myndir
Huginn er enn í toppbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Hetti í heimaleik á Fellavelli í gærkvöldi. Ellefu gul spjöld fóru á loft í heitum Austfjarðaslag.
Höttur varð fyrri til að skora í leiknum en það gerði Ignacio Martinez á 33. mínútu. Gonzalo Leon jafnaði hins vegar tveimur mínútum síðar.
Milos Ivankovic kom Huginn yfir strax á annarri mínútu seinni hálfleiks eftir sendingu frá hægri. Höttur sótti nokkuð stíft eftir það og fékk nokkur ágætis færi en tókst ekki að nýta þau.
Nokkur hiti var í leiknum í seinni hálfleik og fengu ellefu leikmenn gul spjöld í seinni hálfleik. Ekki er hægt að segja að brotin hafi verið fólskuleg eða ljót en lítið var hægt að segja við spjöldunum sem komu ýmist fyrir síðbúnar tæklingar eða brot á sóknarmönnum á leið í vænlega stöðu.
Þriðja mark Hugins skoraði svo Stefán Ómar Magnússon á lokamínútu venjulegs leiktíma. Höttur ætlaði í skyndisókn en töpuðu boltanum áður en þeir komust yfir miðju. Vörnin var opin og Stefán Ómar lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð Hattar.
Gott að fá hvíld
Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, sagði að mörkin í leiknum hefðu komið gegn gagni leiksins. „Við vorum flottir í fyrri hálfleik. Höttur komst tvisvar yfir miðju þá og náði að skora, sem var lélegt hjá okkur.
Þeir lágu síðan eðlilega á okkur í seinni hálfleiknum, enda við þreyttir og að glíma við meiðsli. Það verður gott að fá 10 daga frí núna, svo framarlega sem menn drekka sig ekki út í vitleysu um helgina.“
Huginn er í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum frá næsta liði fyrir ofan. Baráttuhugur er í Brynjari fyrir efstu tveimur sætunum sem gefa sæti í fyrstu deild að ári. „Það eru öll liðin í deildinni flott þannig það er ekkert gefið.“
Pirrandi að ná ekki að jafna
Nenad Zivanovic, þjálfari Hattar, telur Huginn eiga góðan möguleika á að komast upp. „Miðað við það sem ég hef séð er Huginn með besta lið deildarinnar. Gallinn er sá að varamannabekkurinn er þunnskipaður.
Nenad, sem er spilandi þjálfari, segist hafa fundið fyrir því að stoltið væri undir í nágrannaslagnum. „Ég fann að stemmingin var öðruvísi. Ég var svekktur með leik okkar í fyrri hálfleik og slæmt að við fengjum á okkur mark snemma í seinni hálfleik. Leikurinn var nokkuð hraður eftir það og það var pirrandi fyrir okkur að ná ekki að skora.“
Höttur er í neðri hluta deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti. „Það er vont að við erum að missa tvo leikmenn erlendis í nám. Við þurfum sex stig til að halda okkur upp og ég hef fulla trú að við náum þeim.“