Enn er hægt að skrá keppendur á Unglingalandsmót UMFÍ
Skráningarfrestur hefur verið framlengdur á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum um helgina.
Er þetta tuttugasta Unglingalandsmót UMFÍ og er það UÍA (Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands) er mótshaldari að þessu sinni. Mótið hefst á föstudaginn og lýkur um miðnætti sunnudag. Undantekningin er þó sú að keppni í golfi hefst fimmtudaginn 3. ágúst.
Skráningarfrestur hefur verið framlengdur
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og er það opið öllum börnum og ungmennum á aldrinum 11-18 ára. Allir geta tekið þátt, óháð því hvort viðkomandi er skráður í ungmennafélag, íþróttafélag eða ekki.
Skráningarfrestur hefur verið framlengdur og rennur út á miðnætti í kvöld. Keppt verður í 24 greinum á Unglingalandsmótinu. Mótsgjaldið er 7.000 krónur og er fyrir það hægt að taka þátt í eins mörgum keppnum og viðkomandi vill. Smellið hér til þess að skrá ungmenni.
Fjölbreytt skemmtidagskrá
Heilmikil afþreying er í boði fyrir alla fjölskylduna á meðan Unglingalandsmóti UMFÍ stendur. Á kvöldin verða skemmtanir. Þar koma fram landsþekktir tónlistarmenn og hljómsveitir á borð við Úlf Úlf, Emmsjé Gauta, MurMur, Aron Hannes, Hildi, Between Mountains og marga fleiri.
Danski fimleika- og sýningahópurinn Motus Teeterboard skemmta á mótinu en í fimleikahópnum eru fjórir fjörugir Danir sem slógu í gegn í danska hæfileikaþættinum Danmark Got Talend í fyrra.