Enn mikill áhugi á snjókrossi

Akstursíþróttafélagið Start stendur fyrir keppni í snjókrossi í Stafdal á laugardag. Skipuleggjandi segir undirbúning mótsins hafa gengið vel þótt í ýmis horn sé að líta.

„Það hefur verið lítið að gerast undanfarin ár fyrir sleðaáhugamenn. Í fyrra var ákveðið að halda mót til að sjá hvort enn væri áhugi til staðar, það var vel sótt með 20 keppendum þannig við sáum strax að þetta þyrfti að gera aftur.

Það lítur út fyrir að sami áhugi sé nú og skráningarnar ganga vonum framar,“ segir Fannar Magnússon, einn skipuleggjenda. Skráningarnar má síðan margfalda með 3-4 sem eru þeir sem fylgja hverjum keppanda.

Undirbúningur er á lokametrunum en í ýmis horn er að líta, afla þarf trygginga, leggja brautir og finna sjálfboðaliða til starfa í bæði undirbúningi og á keppnisdag. Það gengur hins vegar vel.

„Við erum í öflugum klúbb sem er samheldin þegar kemur að mótshaldi hvort sem það er torfæra, mótorhjól eða sleðamót. Menn almennt tilbúnir leggja hönd á plóg og láta hlutina ganga upp. Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við starfsmenn skíðasvæðisins í Stafdal og metum við það mikið,“ segir hann.

Keppnin sjálf hefst klukkan 13:00 og er aðgangur ókeypis. Verðlaunaafhending og uppskeruhóf verður á Tehúsinu klukkan 19:00 um kvöldið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar