Erfið botnbarátta framundan hjá Fjarðabyggð og Leikni F. - Myndir
Nóg var um að vera í fótboltanum um helgi hjá liðunum á Austurlandi. Síðasta vika var erfið hjá liðunum og almennt hjá austfirsku liðunum. Aðeins eitt þeirra náði í stig.Í gær lék Fjarðabyggð gegn Reyni Sandgerði á Eskjuvelli í 2. deild karla. Í byrjunarliði Fjarðabyggðar voru Búlgararnir Georgi Slavchev og Lachezar Stankov Georgiev sem báðir gengu til liðs við Fjarðabyggð í síðustu viku. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli þar sem úrslitin réðust undir lok leiks þegar Fjarðabyggð jafnaði metin með sjálfsmarki Reynis Sandgerðis en fyrra mark Fjarðabyggðar skoraði Adam Örn Guðmundsson.
Lítið hefur gengið hjá Fjarðabyggð í sumar og leitar liðið enn að fyrsta sigri tímabilsins en liðið situr nú í fallsæti með fimm stig eftir tíu leiki.
Í Njarðvík í gær tóku heimamenn á móti Leikni Fáskrúðsfirði í 2. deild karla. Leiknismenn vilja vafalaust gleyma þessari ferð á Suðurnes sem fyrst þar sem liðið beið afhroð í leiknum og tapaði honum 9-1. Inigo Albizuri skoraði mark Leiknis í seinni hálfleik en í hléi var staðan 5-0. Mikil meiðsli hafa herjað á Leiknisliðið að undanförnu.
Leiknir er sem stendur í tíunda sæti deildarinnar, sæti ofar en Fjarðabyggð, með níu stig eftir tíu leiki. Stefnir allt í að bæði Fjarðabyggð og Leiknir muni þurfa að leggja allt í sölurnar fyrir síðari umferðina til að halda sér í 2. deildinni. Þau mætast á föstudagskvöld.
Á laugardaginn var spilað í 3. deild karla þar sem Höttur/Huginn tók á móti ÍH frá Hafnarfirði og lék útileik í Vestmannaeyjum við KFS. Höttur/Huginn tapaði sínum leik 1-2 þar sem mark Hattar/Hugins skoraði Knut Erik Myklebust undir lok leiks. Knut Erik lék þar sinn síðasta leik fyrir Hött/Huginn en keppni er að hefjast ný í heimalandi hans Noregi. Þrátt fyrir tapið er Höttur/Huginn enn í efsta sæti deildarinnar með 22 stig eftir tíu leiki.
Einherji tók á móti Tindastóli á laugardag í leik þar sem níu mörk voru skoruð. Því miður fyrir Vopnfirðinga skoruðu gestirnir meirihluta þeirra eða sex. Björn Andri Ingólfsson kom heimamönnum yfir á þriðju mínútu en Pape Mamadou Faye jafnaði tveimur mínútum síðar. Heiðar Aðalbjörnsson kom Einherja aftur yfir á 11. mínútu en gestirnir voru komnir yfir 2-3 fyrir leikhlé.
Þeir bættu svo við þremur mörkum í seinni hálfleik, þar af Pape tveimur en hann skoraði fjögur í leiknum auk þess sem Sverrir Hrafn Friðriksson, fyrrum leikmaður Einherja, skoraði síðasta markið kortéri fyir leikslok. Ismael Trevor skoraði fyrir Einherja á fjórðu mínútu uppbótartíma. Með sigrinum komst Tindastóll upp fyrir Einherja og sendi Vopnafjarðarliðið niður í ellefta sæti.
Myndir úr leik Leiknis gegn KV síðasta miðvikudag og Hattar/Hugins gegn ÍH.