Erfitt að halda úti öflugu liði án þess að eiga heimavöll

Litlar líkur virðast á að spilað verði á Seyðisfjarðarvelli í sumar. Fyrirliði Hugins kallar eftir að skoðaðir verði vallarkostir í bænum þannig að liðið geti spilað þar og æft.


Fyrirliðinn Birkir Pálsson kallar eftir umræðum og stefnumótun um vallarmál á Seyðisfirði í opnu bréfi sem hann birti í hópi stuðningsmanna Hugins á Facebook í vikunni.

Hugin, sem spilar í annarri deild karla í knattspyrnu, hefur leikið heimaleiki sína á Fellavelli það sem af er tímabili. Liðið hefur spilað leiki sína vor og haust þar síðustu ár vegna ástandsins á Seyðisfirði.

Nú er hann hvorki hæfur til keppni né æfinga. „Æfingar Huginsmanna sem staðsettir eru á Seyðisfirði hafa farið fram á sparkvelli sem er u.þ.b. 20x40 metrar á meðan knattspyrnuvöllur er 68x105 metrar að jafnaði. Stundum hafa æfingar farið fram á vellinum í Fellabæ en þá fara auka 50-60 mínútur í keyrslu til og frá æfingavellinum,“ bendir Birkir á.

Hann segist svartsýnn á að nokkuð verði spilað á Seyðisfjarðarvelli í sumar og stórra aðgerða sé þörf fyrir framtíðina, eigi að vera hægt að halda áfram úti öflugu liði. Hann geri sér grein fyrir að fjárhag Seyðisfjarðar sé þröngur stakkur sniðinn en kallar eftir áformum um vallaraðstæður. Til dæmis veltir hann upp hvort hægt sé að byggja upp æfingavöll inni á Langatanga, þar sem áður var malarvöllur.

Hugur hans er þó mest hjá vellinum við Garðarsveg. „„Það virðast allir vita hvað vandamálið er við völlinn. Alltaf er þó farið einhverjar styttri leiðir til þess að reyna að „laga“ hann. Það er ódýrari kosturinn en þegar allt kemur til alls þá er eflaust búið að eyða meiri pening í þessar lagfæringar í gegnum árin heldur en að gera hlutina almennilega einu sinni.“

Seyðisfjarðarvöllur hefur verið sérstaklega slæmur í bleytu en vatn virðist standa lengi upp í honum þannig að hann verður háll og tætist upp þegar spilað er á honum. Í svari í umræðum um bréf Birkis er bent á að fyrir tveimur árum hafi verið gerð kostnaðaráætlun um viðgerð vallarins á Langatanga sem hljóðað hafi upp á 20 milljónir króna.

Þá geri aðalskipulag Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 ráð fyrir íþróttavelli norðan Bakkahverfis og gervigrasvelli við hliðina. Heimild bæjarstjórnar sé þar með bundin við það svæði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.