„Erum ekki að jarða völlinn en þetta er kveðjustund“ – Myndir
Seyðfirðingar kvöddu knattspyrnuleik sinn, sem senn verður tekin undir íbúabyggð, á laugardag. Tvö lið, skipuð fyrrum leikmönnum Hugins, gerðu 4-4 jafntefli í kveðjuleik.Alls höfðu um 50 manns lýst yfir áhuga á að taka þátt í leiknum en svo fór að tæplega 40 manns mynduðu liðin tvö.
Á vellinum mátti þó sjá margar kempur, þar á meðal Friðjón Gunnlaugsson, leikjahæsta mann Hugins, sem skoraði þrennu í leiknum og Guðjón Harðarson sem var aldursforseti vallarins, 68 ára. Hann spilaði hluta leiksins á hægri kanti en dóttir hans Elísabet Maren Guðjónsdóttir var í vinstri bakvarðarstöðu hins liðsins á sama tíma.
Af öðrum leikmönnum má meðal annars nefna Jóhann Björn Sveinbjörnsson og Birki Pálsson, sem eiga úrvalsdeildarleiki að baki og Guðmund Magnússon, fyrrum þjálfara Hugins.
Þá voru fastir sjálfboðaliðar á sínum stað, meðal annars þær Bryndís Aradóttir og Ólöf Hulda Sveinsdóttir sem staðið hafa vaktina í vallarsjoppunni svo áratugum skiptir.
Jöfnunarmarkið kom með síðustu snertingu leiksins, það skoraði markvörðurinn Sigurður Ívar Grétarsson sem hafði brugðið sér fram í hornspyrnu.
Að leik loknum rifjaði Þorvaldur Jóhannsson upp sögu vallarins sem hefur verið á þessum stað frá 1916. Þorvaldur sagði það eitt elsta vallarstæði landsins, ef ekki það elsta.
Hann verður nú tekinn undir íbúabyggð en slíkt land skortir á Seyðisfirði eftir aurskriðurnar í desember. Sagðist Þorvaldur óska nýrri íbúabyggð velfarnaðar.
Áður hefur þó verið byggð á vellinum en þar stóð braggahverfi í seinni heimsstyrjöldinni. Rifjaði Þorvaldur upp að herinn hefði skilið illa við svæðið.
Fjölmennasti viðburðurinn sem haldinn hefur verið á vellinum var þó ekki knattspyrnuleikur heldur sýning á ökukúnstum Hell Drivers í byrjun níunda áratugarins. 1200 manns mættu á sýningu flokksins og sagði Þorvaldur að hún hefði bjargað fjárhag knattspyrnudeildarinnar það sumarið.
Félagar úr Huginn tóku sig til í lokin og negldu hvítan kross niður í miðjupunkt vallarins. Séra Sigríður Rún Tryggvadóttir flutti kveðjuorð og árnaðaróskir til nýrrar byggðar. Sagði hún að ekki væri verið að jarða völlinn en þetta væri kveðjustund.
Liðsmyndir: Skúli Jónsson
Mynd af Bryndísi og Ólöfu Huldu: Katrín Reynisdóttir