Eskfirðingur ráðinn landsliðsþjálfari

Jesper Sand Poulsen, íbúi á Eskifirði, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari karla og kvenna í pílukasti.

Í tilkynningu frá Pílusambandinu segir að landsliðsþjálfari gegni veigamiklu hlutverki í afreksstarfi sambandsins. Hann velur úrtakshópa og síðan lokahópa landsliðanna. Næsta landsliðsverkefni er Norðurlandamótið í lok maí í Svíþjóð.

Áður hafði staðið til að nota stigalista sambandsins til að velja landsliðin, en því hefur verið breytt. Jesper mun kynna sinn fyrsta úrtakshóp á fyrri hluta næsta árs.

Jesper er 41 árs, giftur Maríu Hjálmarsdóttur, verkefnastjóra hjá Austurbrú. Þau eiga saman tvö börn. Jesper er danskur að uppruna en hefur starfað hjá Rubix á Reyðarfirði frá 2013 þar sem hann er rekstrarstjóri í dag. Hann er formaður og einn stofnenda Píluklúbbs Austurlands.

„Ég hlakka til að vera hluti að liði sem mun móta íþróttina í framtíðinni og auka áhuga á henni. Ég hef enga ástæðu til að áætla annað en að íþróttin geti vaxið svipað og hún hefur verið að gera undanfarin tvö ár. Ég hef tekið eftir mikið af nýjum spilurum sem hafa metnað og burði til þess að ná langt í íþróttinni og ég hlakkar til að fylgjast með á komandi misserum,“ er haft eftir Jesper í tilkynningu.

Þar kveðst sambandið fagna ráðningu hans og hlakka til samstarfsins sem miði að því að koma Íslandi á heimskortið í pílukasti.

Jesper hefur verið í stjórn sambandsins en hættir því nú.

Frá undirritun samningsins. Mynd: Íslenska pílukastssambandið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar