Eysteinn sjóðheitur í síðasta heimaleik Hattar – Myndir

Eysteinn Bjarni Ævarsson átti stórleik í síðasta heimaleik Hattar í úrvalsdeild karla að sinni. Liðið tapaði fyrir Þór Þorlákshöfn 93-104 í gærkvöldi en ljóst var fyrir leikinn að liðið væri fallið.


„Mér leið vel á vellinum í kvöld og skotin duttu ofan í. Mér fannst leikurinn skemmtilegur þótt við höfum tapað. Við skoruðum nóg, við svöruðum alltaf þegar þeir skoruðu en það vantaði að við næðum að verjast þeim. Þá hefði þetta komið,“ sagði Eysteinn í viðtali eftir leikinn.

Eysteinn skoraði 29 stig fyrir Hött, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar sem skilar honum svokallaðri þrennu í tölfræðinni og reiknast í 43 framlagsstig. Aðspurður mundi Eysteinn ekki eftir því að hafa áður skorað svo mörg stig í leik í meistaraflokki.

Framlag hans dugði ekki til því vörn Hattar gekk illa að ráða við þriggja stiga skyttur gestanna. Munurinn varð til í öðrum leikhluta þar sem Þórsarar skoruðu fimm þriggja stiga körfur en þeir skoruðu alls 30 stigum meira fyrir utan línuna en Hattarmenn.

Með þrautseigju tókst Hetti að vinna sig aftur inn í leikinn og koma muninum niður í tvö stig þegar fáar mínútur voru til leiksloka. Þórsarar hrukku þá í gang á ný og eftir tvær þriggja stiga körfur í röð var munurinn fljótt kominn aftur í tíu stig.

Einu sinni áður í vetur hafði Hetti tekist að skora 93 stig en liðið hafði aldrei fengið á sig yfir 100 stig og aðeins einu sinni yfir níutíu.

„Sóknin var fín í kvöld og við fengum opin skot í nánast hverri sókn en varnarleikurinn var ekki nógu góður. Það vantaði eitthvað til að berjast fyrir og menn virtist ekki nenna að berjast,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.

Hattarliðið var fallið fyrir leikinn eftir óhagstæð úrslit á fimmtudagskvöld. Viðar Örn segist ánægður með stígandann í leik liðsins en hann dugi ekki til. „Þróunin hefur verið upp á við, bæði hjá einstökum leikmönnum og liðinu í heild og við spilað vel eftir áramót en það er ekki nóg að sinni. Því er nú ver og helvítis miður.“

Liðið spilar sinn síðasta leik í úrvalsdeildinni í bili gegn Haukum á fimmtudagskvöld. Eftir það verður framtíðin skoðuð.

„Það er allt óljóst enn nema með fáa leikmenn. Menn haf bara aðeins rætt saman. Það verður farið í að skoða stöðuna eftir leikinn gegn Haukum.“

Myndir: Atli Berg Kárason

Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0018 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0026 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0035 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0036 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0053 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0074 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0086 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0100 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0119 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0153 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0163 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0173 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0199 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0211 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0229 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0239 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0245 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0258 Web
Karfa Hottur Thor Thorlaks Mars16 0343 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar