Eysteinn: Við þurfum nánast kraftaverk til að halda okkur í þessari deild
Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Hattar, var að vonum súr eftir 2-3 tap fyrir Leikni Reykjavík í fallslag fyrstu deildar karla í knattspyrnu á Vilhjálmsvelli í dag. Hattarliðið er þar með komið í fallsætið og erfiðan leik í lokaumferðinni. Eysteinn viðurkenndi að gestirnir úr Breiðholti hefðu einfaldlega verið betri í dag.
„Þeir voru bara betri í fótbolta en við í dag á ansi mörgum sviðum,“ sagði Eysteinn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn. Hann lýsti einnig furðu sinni á að Leiknisliði væri yfir höfuð í fallbaráttunni.
„Við mættum þeim í vetur og í sumar og höfðum ekkert í þá. Það er með ólíkindum að svona gott lið sé í þessari stöðu.“
Ekki nóg að vera með boltann
Höttur var meira með boltann í leiknum en skapaði sér fá færi. Gestirnir komust yfir strax á fimmtu mínútu og gátu leyft sér að liggja til baka, loka svæðum og beita skyndisóknum sem skiluðu þeim fleiri færum.
Annað markið kom eftir tæpt kortér í seinni hálfleik. Varnarmaður Leiknis var þá að hreinsa boltann við miðlínu en einhvern vegin sveif knötturinn efst í markhorn Hattar, yfir Bajkovic markvörð. Þegar um tuttugu mínútur voru eftir skilaði ein skyndisóknin árangri og Leiknismenn í kjörstöðu 0-3 yfir.
Elvar Ægisson minnkaði muninn úr víti þremur mínútum fyrir leikslok eftir að Garðar Grétarsson skallaði boltann í hönd varnarmanns Leiknis á marklínu. Friðrik Þráinsson skoraði síðan í uppbótartíma.
„Við höfðum ekki sannfæringuna“
„Auðvitað hafði ég trú á að við gætum skorað þriðja markið en þetta var of seint í rassinn gripið,“ sagði Eysteinn og bætti því við að svo virtist sem liðið hefði ekki haft fulla trú á að það gæti unnið Leikni og bjargað sér frá falli.
„Við höfðum ekki þessa sannfæringu að þetta væri að fara að ganga og þá koma mörk eins og annað markið. Hefðum við verið rétt innstilltir, örlítið betur undirbúnir þá hefðum við vel getað sigrað.“
Eysteinn áfelldist samt ekki leikmenn sína fyrir dugleysi. „Ég er stoltur af strákunum. Það eru allir búnir að leggja sig fram og eru allir af vilja gerðir en það vantaði ákveðin gæði í leik okkar í dag.“
Enn smá von
Höttur heimsækir deildarmeistara Þórs á Akureyri í lokaleiknum um næstu helgi. Höttur verður að vinna og treysta á að Leiknir vinni ekki nágranna sína í ÍR á sama tíma.
„Þessi úrslit þýða að við þurfum nánast kraftaverk til að halda okkur í þessari deild. Það þýðir ekki að dvelja við þennan leik, við verðum bara að horfa fram á við. Ef við undirbúum okkur hver og einn eins og við getum, komum saman í leikinn og leggjumst á árarnar er enn smá von. Við sem lið, sem félag, sem hópur getum engum öðrum kennt nema okkur sjálfum.“