Eyþór þreytti frumraun sína í Sterkasta manni heims

Eyþór Ingólfsson Melsteð, 27 ára gamall Breiðdælingur, þreytti um helgina frumraun sína í úrslitum keppninnar um Sterkasta mann heims.

Keppt var í Sacramento í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hófust leikar með forkeppni síðasta þriðjudag. Þar var 25 aflraunamönnum skipt í fimm riðla og keppt þeir um tíu sæti í úrslitakeppninni.

Sigurvegarinn úr hverjum riðli komst beint áfram en hinir tveir næstu háðu einvígi. Eyþór komst áfram úr riðli þrjú að loknu einvígi.

Úrslitin fóru síðan fram um helgina en þar voru sex þrautir. Eyþóri var í brasi í þeirri fyrstu, þar sem bera þurfti tvö sett af kútum, annars vegar 350 kg og hins vegar 440 kg á herðunum 10 og 15 metra leið. Eyþóri tókst ekki að ljúka þrautinni.

Næsta þraut var að snúa 30 tonna eimreið á risavöxnu snúningsborði. Þar vegnaði Eyþóri vel og var hann 52,83 sekúndur að snúa lestinni.

Eyþór kláraði allar þrautirnar fjórar sem eftir voru, þótt hann væri almennt í neðri hlutanum og endaði að lokum í tíunda sætinu með 20,3 stig. Bretinn Tom Stoltman vann með 45,5 stig.

Eyþór byrjaði að keppa í aflraunum árið 2015 þegar hann tók þátt í Austfjarðatröllinu. Hann hafði aðstoðað við keppnina fram að því og verið í fitness og vaxtarækt frá 17 ára aldri. Í samtali við Austurfrétt eftir að hafa unnið Austfjarðatröllið 2019 sagðist Eyþór sjá fyrir sér að hann tæki þátt í Sterkasta manni heims innan 2-3 ára. Hann reyndi fyrir sér í fyrra en komst þá ekki upp úr forkeppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.