Fær seint leið á að vera á toppnum

Glímudrottning Íslands 2024 er Marín Laufey Davíðsdóttir. Hún hefur hefur verið búsett á Reyðarfirði um margra ára skeið. Engu að síður keppir hún enn í grein sinni undir merkjum Héraðssambandsins Skarphéðins.

Þetta er í sjötta sinn sem hún vinnur Íslandsglímuna þar sem í kvennaflokki er keppt um Freyjumenið. Hún fékk einnig Rósina, viðurkenningu fyrir heiðarleika í keppni og fallegustu glímubrögðin.

„Ég fæ seint leið á því að vinna þessi verðlaun þó tíminn sé vissulega orðinn langur. Það er alltaf jafn skemmtilegt að sigra og taka móti þessum fallegu og merkilegu verðlaunum. Það líka breytist reglulega hvaða keppendur taka þátt þannig að það er ekki eins og ég sé að keppa alltaf á móti sama fólkinu á þessum mótum. En auðvitað gaman að vita að maður eigi enn góða möguleika á móti þeim bestu og meðan svo er þá held ég þessu áfram.“

Meiðsli leiddu hana í glímuna


Oftar en ekki þegar fólk fer að glíma við meiðsli í íþróttum er reglan sú að fólk dregur úr æfingum eða beinlínis hættir. Marín Laufey fór aðeins aðra leið því hún var hvað spenntust fyrir körfubolta á yngri árum og stundaði þá íþrótt samhliða glímunni þangað til hún fór að finna fyrir sívaxandi óþægindum í hnjám.

„Ég var byrjuð í körfu ári áður en ég byrjaði að glíma en stundaði báðar íþróttir samhliða um tíma. Þá bjó ég fyrir sunnan og spilaði um tíma með Hamri í Hveragerði. Svo keppti ég líka um tíma með bæði Keflavík og Breiðabliki í úrvalsdeildinni og tók þátt í landsliðsstarfi bæði með yngri landsliðum og A-landsliðinu.

Ég hætti því svo 2018 þegar ég fór að finna fyrir í hnjánum og einbeitti mér alfarið að glímunni. Munurinn á þessum tveimur íþróttum er að í glímunni getur maður sjálfur stýrt álaginu og æfingaprógrammi. Þá er enginn þjálfari sem segir mér að spila ákveðið margar mínútur úti á vellinum eða neitt slíkt. Í glímu ákveð ég hvort ég keppi eða ekki.“

Varaformaður Glímusambandsins


Marín Laufey er sitjandi varaformaður Glímusambands Íslands og þó hún hafi áður komið nálægt stjórn þess sambands segir hún tímann nú sérstaklega spennandi. Það helgast af því að nýverið gafst Glímusambandi Ísland í fyrsta sinn tækifæri til að hafa framkvæmdastjóra í fullu starfi. Það hefur sannarlega skipt sköpum að hennar sögn.

„Vegur glímunnar hefur oft verið mikið á brattann. Þó það hafi gegnum tíðina komið sveiflur í iðkendafjölda hefur ekki tekist vel að fjölga neitt að ráði í langan tíma og þá sérstaklega gengið erfiðlega að fá unga fólkið inn. Ég vil meina að hluti skýringarinnar á því sé að Glímusambandið sjálft hefur sjaldan haft mikið fjármagn milli handanna og því takmarkað hvað hægt er að kynna íþróttina eða senda glímufólk erlendis til keppni.

Það er mikil synd hvað lítið fer fyrir glímunni sem er án alls vafa merkasta íþrótt Íslendinga og mikill þjóðararfur að mínu viti. Ég hef meira segja undrast gegnum tíðina hvers vegna Þjóðminjasafnið gerir íslensku glímunni lítil sem engin skil þrátt fyrir að rekja megi sögu íþróttarinnar lengra aftur en til landnáms. Ég myndi gjarnan vilja sjá til dæmis verðlaunagripina á sýningu þar enda stórmerkilegir út af fyrir sig.“

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Marín Marín Laufeyju Rósina. Mynd: Glímusamband Íslands/Antanas Šakinis

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.