Færri komust að en vildu á torfærukeppni

Isavia torfæran fór fram í Ylsgrúsum, skammt frá Egilsstöðum, nú um helgina. Mikil fjöldi áhorfenda lét sjá sig, svo margir að einhverjir urðu frá að hverfa þegar búið var að ná þeim fjöldatakmörkunum sem skipuleggjendur höfðu sett í samráði við sóttvarnayfirvöld.

Ingvar Birkir Einarsson, öryggisfulltrúi keppninnar, var mjög ánægður með hvernig til tókst. „Við vildum alls ekki gera þetta nema gera þetta vel og í samræmi við allar reglur. Með góðri skipulagningu og þátttöku alls starfsfólks, keppenda og áhorfenda tókst það og við viljum þakka öllum kærlega fyrir samstarfið og að gera þetta mögulegt með okkur.“ Alls sóttu um 600 áhorfendur keppnina og var svæðinu skipt í þrjú sóttvarnahólf. Innan eins þeirra voru keppendur og starfsfólk keppnisliða og áhorfendasvæðum var skipt í tvö aðskilin hólf.

 

Reglur sem fara varð eftir

„Við settum upp þetta skipulag og bárum það síðan undir sóttvarnateymi sem er starfandi á Landspítalanum. Þau lögðu blessun sína yfir áformin og voru mjög sátt við að við skyldum bera þetta undir þau. Síðan var svæðið og aðstaðan tekin út af HSA og lögreglunni fyrir keppni,“ segir Ingvar Birkir og bætir við að aðsóknin hafi verið framar öllum væntingum.

„Þetta var meira en við bjuggumst við. Það er greinilegt að fólk vildi gjarnan komast í einhverja afþreyingu.“

Svo mikil varð aðsóknin að skipuleggjendur urðu að vísa frá áhorfendum eftir að hámarki var náð innan áhorfendahólfanna. „Almennt séð tók fólk þessu bara vel og sýndi aðstæðunum skilning. Það voru einhver smá leiðindi, einhverjir voru svekktir eftir að hafa að sögn komið langt að, en við því var ekkert að gera. Við ætluðum okkur og urðum að fara að reglum.“

 

Guttinn og Strumpurinn fremstir í flokki

Keppnin sjálf, sem var fyrsta umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri, fór vel fram og sýndu keppendur að vanda góð tilþrif. Keppt var í tveimur flokkum, en í flokki sérútbúinna bíla sigraði Ingólfur Guðvarðarson á Guttanum, annar varð Haukur Viðar Einarsson á Heklu og í þriðja sæti Skúli Kristjánsson á Simba. Af heimamönnum var Ólafur Bragi Jónsson á Refnum fremstur í flokki en hann náði fjórða sæti.

Í götubílaflokki sigraði Steingrímur Bjarnason á Strumpinum, Óskar Jónsson á Úlfinum varð í öðru sæti og Ágúst Halldórsson á Kölska í því þriðja.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar