Feðgar spiluðu saman fyrir Þrótt

Feðgarnir Egill Kolka Hlöðversson og Hlöðver Hlöðversson spiluðu saman fyrir Þrótt Neskaupstað gegn Þrótti Vogum þegar liðin mættust í efstu deild karla í blaki um seinustu helgi.

„Það er gríðarlega gaman að spila með þessum ungu peyjum og geggjað að vera inni á vellinum með syninum. Mér hlýnaði um gamlar hjartarætur,“ segir Hlöðver.

Þeir höfðu báðir verið í leikmannahópi Þróttar leikina á undan en ekki komið inn á völlinn báðir í einu. Það náðist loks um síðustu helgi þegar Þróttur vann 3-0 öruggan sigur á Þrótti Vogum.

Hlöðver lék sinn fyrsta meistaraflokksleik á táningsaldri fyrir HK. Blakið vék þó fljótt fyrir öðrum verkefnum í lífinu og var hann kominn vel fram yfir þrítugt þegar skórnir voru teknir fram á ný. Hlöðver hefur síðan spilað með meistaraflokki Þróttar þann áratug sem liðinn er síðan liðið hóf aftur keppni í landsdeild í karlaflokki, utan eins.

Hann segist þá hafa ætlað að hætta en verið viðloðandi þjálfun og til taks þegar á þurfti að halda. Skórnir eru ekki enn farnir upp á hilluna en Hlöðver segist vera til taks þegar á þurfi að halda. „Það eru forréttindi að fá að vera með þessum öflugu ungu leikmönnum og síðan hjálpar maður með að veita þeim mótstöðu á æfingum.“

Hlöðver er orðinn 48 og segist vera einn þriggja öldunga í liðinu. Tveir leikmenn í hópnum teljast á miðjum aldri blakleikmanna en restin er um eða undir tvítugu og segir Hlöðver að Þróttur hafi um tíma um helgina náð að spila á liði þar sem meðalaldurinn hafi verið undir 18 árum. Í þeim hópi var Egill sem er 16 ára.

En fleiri fjölskyldubönd voru í liðum Þróttar um helgina. Í sama leik spiluðu bræðurnir Andri Snær og Arnar Sigurjónssynir saman. Þá gegna systkinin Þórarinn Örn og Ester Rún Jónsbörn lykilhlutverki í meistaraflokksliðunum. „Þetta er dæmigert fyrir svona lítið samfélag,“ segir Hlöðver.

Bæði liðin eiga heimaleiki um næstu helgi. Kvennaliðið á tvo leiki gegn Álftanesi en karlaliðið mætir HK. Hlöðver reiknar ekki með að þeir feðgarnir fái annað tækifæri saman þá á vellinum. „HK er sterkt og við munum keyra á aðalliðinu. Það þarf allt að ganga upp til að við eigum möguleika gegn þeim. En við verðum klárir ef kallið kemur.“

Egill og Hlöðver í leiknum gegn Þrótti Vogum. Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.