Ferðakostnaður afreksíþróttafólks hleypur á hundruðum þúsunda
Ferðakostnaður austfirskra ungmenna sem komast í landslið getur numið hundruðum þúsunda króna. Hjá liðum hleypur kostnaðurinn á milljónum króna.Þetta kom fram á málþingi sem haldið var að frumkvæði íþróttafélagsins Hattar í tengslum við komu Vésteins Hafsteinssonar, afreksíþróttastjóra Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands til Austurlands síðasta haust. Upplýsingarnar voru nýttar við úttektar á stöðu og framtíð afreksíþrótta sem kynnt var nýverið.
Austfirðingar hafa löngum minnt á háan kostnað við keppnisferðir enda gjarnan um langan veg að fara og oft þar sem fjöldi leikja og móta fer fram á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhanns Harðarson, þá formaður knattspyrnudeildar Hattar, nefndi á málþinginu dæmi um ferðakostnað austfirsks íþróttafólks. Upphæðirnar eru háar, hvort sem um ungmenni eða fullorðna.
Þannig nam ferðakostnaður blakdeildar Þróttar tímabilið 2022-23 12,5 milljónum króna. Kostnaður meistaraflokkanna var um helmingur eða 6,6 milljónir. Hann tiltók einnig ferðakostnað tveggja ungmenna frá Þrótti á sama tíma sem hafa komist í yngri landslið. Ferðir Hrefnu Ágústu Marinósdóttur kostuðu tæpa hálfa milljón en Ármanns Snæs Heimissonar rúm 240 þúsund.
Heildarferðakostnaður sameiginlegs liðs frá Austurlandi í fjórða flokki kvenna var 7,4 milljónir árið 2022 og þá kostaði ferðin fyrir körfuknattleikslið Hattar í sjöunda flokki drengja 787 þúsund á eitt mót veturinn 2022-23.
„Aðstöðumunur íþróttafjölskyldna úti á landi samanborið við höfuðborgarsvæðið er sá að félög á suðvesturhorninu fara kannski eina til tvær ferðir út á land á ári. Við hér förum fleiri ferðir á ári í öllum íþróttagreinum. Þá er mikill aðstöðumunur þegar horft er til fjölda leikja sem börn á höfuðborgarsvæðinu spila umfram börn úti á landi. Þetta er gríðarlegt jafnréttismál, byggðamál, lýðsheilsu- og forvarnarmál og skiptir íslenskt íþróttalíf máli því af landsbyggðinni hefur komið fjöldi afreksfólks í gegnum tíðina,“ sagði Jóhann.
Hann kallaði eftir aðgerðum á borð við hærri framlög í ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar, skattaívilnanir til fyrirtækja sem styddu starfið en einnig að félögin sjálf nýttu allar þær leiðir sem í boði væru.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.