FHL getur tryggt úrvalsdeildarsætið á morgun

FHL getur tryggt sér sæti í úrvalsdeild kvenna á morgun með sigri á ÍBV í leik liðanna í Fjarðabyggðarhöllinni. Hagstæð úrslit annarra liða í kvöld gera þetta að verkum.

FHL er í efsta sæti deildarinnar með 34 stig úr 13 leikjum. Sigur á morgun myndi senda liðið í 37 stig þegar fjórar umferðir, eða að hámarki 12 stig, eru eftir.

Tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp. Það þýðir að tvö lið þurfa að vera nær FHL en sem nemur 13 stigum eftir fjórtándu umferðina sem lýkur á morgun.

Grótta er sem stendur í öðru sæti með 25 stig úr 14 leikjum og gæti því enn fræðilega náð FHL, þótt FHL vinni á morgun. Hitt liðið sem getur nálgast FHL er ÍBV, sem fyrir leikinn er með 22 stig en eftir 13 leiki eins og FHL. ÍBV liðið hefur verið á skriði á undanförnu og unnið fimm leiki í röð.

Hvað þýðir jafntefli?


Með jafntefli færi FHL í 35 stig. Þá færi liðið ekki upp. Eftir sem áður ættu önnur lið en Grótta og ÍBV ekki möguleika á að ná því. ÍBV gæti í besta lagi náð FHL að stigum.

En þótt enn sé fræðilegur möguleiki að ná FHL þá er hann varla raunhæfur. Liðið er með 30 mörk í plús en ÍBV fimm. Til að vinna sætið af FHL þyrfti ÍBV þá að vinna alla sína leiki, FHL að tapa öllum sínum og ÍBV að vinna upp 25 marka mismun í fjórum leikjum þar sem markatala ræður röðun þegar lið eru jöfn.

Hvað þarf að gerast til að FHL vinni deildina?


Sömu rök má nota til að styðja þá fullyrðingu að sigur tryggi FHL deildarmeistaratitilinn. Grótta gæti náð FHL að stigum með að vinna alla sína leiki meðan FHL tapaði sínum, en Seltjarnarnesliðið er með aðeins með fjögur mörk í plús.

Hvað ef FHL tapar?


Ef svo illa færi að FHL tapaði á morgun sínum fyrsta leik síðan í þriðju umferð ætti liðið samt nóg af tækifærum til að komast upp. Það myndi hleypa Fram og ÍA inn í þá fræðilegu baráttu að ná FHL að stigum. Liðin eru bæði með 22 stig úr 14 leikjum. Fram er með átta mörk í plús en ÍA fjögur í mínus.

ÍBV og Grótta yrðu þá níu stigum á eftir FHL. Ef FHL tapaði öllum sínum fjórum leikjum í kjölfarið þyrftu ÍBV og Grótta að vinna alla sína til að komast upp fyrir það, eða vinna þrjá og gera jafntefli. Þrír sigrar og jafntefli myndu gera þau jöfn FHL í lokin.

Þetta gæti gerst því ÍBV og Grótta eiga ekki eftir að mætast. Grótta tekur hins vegar á móti FHL í næstu umferð eftir viku.

Leikur FHL og ÍBV hefst í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 12:30 á morgun, laugardag.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar