Fimleikar: Gaman að keppa við þær bestu

Fyrsti flokkur Hattar keppir í A-deild kvenna á bikarmóti í hópfimleikum um helgina. Þar mætir liðið meðal annars Norðurlandameisturum Stjörnunnar og stelpum sem voru í Evrópumeistaraliði Íslands síðasta haust.


„Það verður mjög skemmtilegt og mikil áskorun að keppa við fremstu lið landsins,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari Hattar.

Mótið er fyrir eldri flokka og nær flokkur Hattarliðsins yfir aldurinn 13-17 ára en sumar Hattarstelpnanna eru yngri en það. Skipt er í A og B-deild og var Höttur í B-deildinni í haust. „Við fengum það háa einkunn á móti sem þýddi að við urðum að fara upp í A-deild.“

Auður segir getumun á liðunum en Höttur útfæri sín atriði mög vel. Árangur Hattar hefur vakið athygli þar sem deildin er meðal þeirra fámennari á landinu og flestir keppinautanna æfa í sérstökum fimleikahúsum.

„Við ætlum að gera okkar besta, hafa gaman af þessu og lenda stökkin okkar. Við ætlum að gera vel það sem við gerum og helst fá hærri einkunn en á síðasta móti.“

Í liðinu eru tíu stelpur, átta aðalmenn og tveir varamenn. „Þetta er ótrúlega duglegur hópur sem yfirleitt hefur staðið á palli. Þær hafa tekið vel á öllum sínum verkefnum og áskorunum. Mér finnst ótrúlega flott að vera komin þangað sem þær eru komnar.“

Keppnin verður í Ásgarði í Garðabæ. Hún er sýnd í beinni útsendingu Sjónvarps og hefst hún klukkan 16:00 á sunnudag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar