Fimleikar: Góður árangur Hattar á fyrsta móti vetrarins
Tæplega fjörutíu krakka hópur fór á vegum fimleikadeildar Hattar vestur á Akranes um seinustu helgi til að keppa á fyrsta fimleika vetrarins. Árangurinn var frábær. Ferðin var einnig notuð til æfinga.
Höttur sendi 36 manna hóp í fjórum liðum til keppni á mótinu um helgina. Best gekk í fjórða flokki drengja, 12-14 ára, þar sem liðið varð í efsta sæti. Stúlknaliðið í sama flokki varð í þriðja sæti og liðið í opnum flokki, 16 ára og eldri, í öðru sæti. Sama sæti náði drengjaliðið í flokki 9-12 ára.
Ferðin stóð frá föstudegi til mánudags en seinasti dagurinn var notaður í æfingar í fimleikahúsi Stjörnunnar með þjálfurum Garðabæjarliðsins.
„Æfingaaðstaðan hjá Stjörnunni er sú besta á landinu og því dýrmætt fyrir iðkendur fimleikadeildar Hattar að nýta keppnisferðir til að komast í góða aðstöðu,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari Hattar. „ Margir iðkendanna voru að framkvæma ný stökk og tengja saman erfið stökk á áhöldum sem eru með öryggisbúnað sem er ekki til staðar á Egilsstöðum.“