Fimm Austfirðingar á Íslandsmóti sleðahunda

Egilsstaðabúinn Hjálmar Jóelsson verður elsti keppandinn á Íslandsmótinu á hundasleðum og skijoring sem haldið verður við Fuglasafnið við Mývatn um helgina. Vösk sveit fer að austan á mótið.


Auk Hjálmars eru Hjördís Hilmarsdóttir og Guðrún Frímannsdóttir skráð til leiks í fullorðinsflokki en Björgvin Bjartmarsson, barnabarn Hjálmars og Guðný Sóllilja Hallsdóttir í unglingaflokki.

„Ég hef alltaf verið öldungurinn en nú mætir Hjálmar og hann er tíu árum eldri en ég,“ segir Hjördís sem aðeins hefur misst úr eitt mót síðan það var fyrst haldið árið 2010.

Hún, Guðrún og Guðný Sóllilja hafa þó nokkra reynslu af keppninni en Hjálmar og Bjartmar eru með í fyrsta sinn. Hjördís keppir bæði á sleðum og skíðum en hin eingöngu á skíðum.

Snjóleysi hefur sett strik í reikninginn við undirbúning austfirsku keppendanna. „Hjálmar og Bjartmar hafa spreytt sig einu sinni á Egilsstaðatúninu,“ segir Hjördís.

Hjördís er sú eina sem ræktar husky hunda sem notaðir eru í keppninni og fá hinir Austfirðingarnir lánaða hunda hjá henni.

Á föstudag er keppt frá 11-15 á sleðunum. Hundarnir draga sleðana 5 km en skipt er í flokka eftir hversu margir hundar eru fyrir hverjum sleða.

Á laugardag heldur keppni á sleðunum áfram klukkan 10 með keppni á sleðum þar sem farnir eru 10 og 15 km. Eftir hádegið er skijoring en þar draga hundarnir manneskju á gönguskíðum.

Keppninni líkur klukkan þrjú með spyrnu. Hægt er að skrá sig fram til hádegi á laugardag á staðnum og fá keppendur þá lánaða hunda. Tveir og tveir eru í brautinni í einu og tekinn tími.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar