Fimm tíma að klára fótboltaleik
Tæpar fimm klukkustundir liðu frá því að leikur Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis og Hamars í annarri deild kvenna var flautaður á þar til honum lauk. Honum lauk heldur ekki á sama velli og hann hófst.Leikurinn var flautaður af á Grýluvelli í Hveragerði en lauk í Kórnum í Hveragerði. Eftir átján mínútna leik í Hveragerði var tekin ákvörðun um að flauta leikinn af þar vegna vallaraðstæðna.
„Þegar við komum á svæðið fengum við vitneskju um að völlurinn væri mjög blautur og það gæti þurft að færa leikinn.
Það var grenjandi rigning en reynt að skafa pollana af vellinum. Skömmu fyrir leik leit völlurinn út fyrir að vera pollalaus en þegar hann hófst voru komnir stórir pollar.
Þá upphófst gríðarlegt bíó. Það var ekki hægt að spila fótbolta. Boltinn stoppaði í pollum þannig að hvorki var hægt að senda né rekja boltann auk þess sem leikmenn voru að fljúga á hausinn. Að fara í grasið var eins og að stinga sér til sunds,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.
Reikistefna um framhald
Þrátt fyrir þetta tókst liðinu að austan að skora þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum. Það gerði Freyja Karín Þorvarðardóttir.
En á átjándu mínútu taldi dómari leiksins að nóg væri komið, stöðvaði leikinn og hélt til fundar við þjálfarana. Svo vel vildi til að mótastjóri KSÍ, Austfirðingurinn Birkir Sveinsson, var á staðnum til aðstoðar við að finna lausnir.
Hægara er sagt en gert en að færa knattspyrnuleik. Sem betur fer átti Austfjarðaliðið ekki flug heim fyrr en í morgun en alltaf hefði orðið flókið að finna nýjan leiktíma þar sem leikmenn beggja liða þurftu að mæta í vinnu og skóla í dag. Um tíma var skoðað að spila leikinn í dag en það hefði getað leitt til þess að leikmenn Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis hefðu ekki komist heim fyrr en á morgun.
Þar sem bæði dýrt og erfitt var að fresta leiknum var lögð áhersla á að finna annan leikstað þar sem hægt yrði að halda áfram. Nærtækast hefði verið að fara á Selfoss þar sem er gervigrasvöllur en sá völlur var líka á floti eftir rigninguna.
Sá möguleiki bauðst þá að færa leikinn í knattspyrnuhúsið Kórinn í Kópavogi. Leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir sem tengdust leiknum drifu sig því upp í bíla og keyrðu yfir Hellisheiðina. Liðin voru komin í Kórinn upp úr klukkan fimm og fengu um hálftíma til undirbúnings áður en flautað var á aftur klukkan 17:45.
Þar voru aðstæður allt aðrar og ekki spillti fyrir að náðst hafði að þurrka búnað og búninga leikmanna. „Við fengum góða aðstoð frá Hamarsfólki sem komst í iðnaðarþurrkara. Það bjargaði deginum að komast inn eftir þetta vatnsveður,“ segir Björgvin Karl.
Gerlegt að fara upp
Leikurinn var því flautaður þar frá þeirri mínútu sem hann hafði verið flautaður af í Hveragerði og þær Hafdís Ágústsdóttir, Halla Marinósdóttir og Halldóra Birta Sigfúsdóttir bættu við mörkum fyrir Fjarðabyggð/Hött/Leikni.
Ekki var þó allt búið enn. Skömmu eftir fjórða markið lenti leikmaður Hamars harkalega með þeim afleiðingum að hún tognaði á hálsi og baki. Töluverðan tíma tók að búa um hana og því bættust um 20 mínútur til leiktímann þannig að leiknum lauk ekki fyrr en 19:51, tæpum fimm tímum eftir að hann var fyrst flautaður á.
Burtséð frá því sem gekk á segir Björgvin Karl að lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis hafi staðið sig vel í leiknum. „Leikurinn var skrautlegur í Hveragerði en við náðum þó að að skora mark. Eftir að við komum í Kórinn höfðum við virkilega góð tök á leiknum, spiluðum vel og og kláruðum hann vel.“
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er jafn Grindavík í öðru sæti deildarinnar með 20 stig en Grindavík á leik til góða. Tvö efstu lið deildarinnar fara beint upp. HK hefur stungið önnur lið af en Hamar og jafnvel Álftanes eru enn í baráttunni um annað sætið með fyrrnefndu liðunum tveimur. „Það er gerlegt að fara upp ef við klárum okkar leiki,“ segir Björgvin Karl um stöðuna.
En leikurinn í gær verður væntanlega í minnum hafður um hríð. „Ég hef spilað í verra veðri en ekki svona aðstæðum. Það var mikið af stórum pollum. Að mínu viti hefði aldrei átt að flauta hann á.“
Höttur/Huginn eina sigurliðið
Öll austfirsku karlaliðin léku einnig gær. Af þeim vann aðeins Höttur/Huginn sinn leik, gegn Reyni Sandgerði á Vilhjálmsvelli. Jesús Lopes og Fernando Garcia skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Með sigrinum komst Höttur‘/Huginn upp úr fallsæti á kostnað Einherja sem tapaði 4-2 fyrir Vængjum Júpíters á útivelli. Georgi Karaneychev og Todor Hristov skoruðu mörkin. Eiður Orri Ragnarsson fékk rautt spjald í uppbótartíma. Aðeins einu stigi munar þó á liðunum.
Í annarri deild tapaði Fjarðabyggð 0-1 fyrir Selfossi á Eskifirði og er um miðja deild. Flökkusögur fóru þó á kreik um gang mála því vefurinn Úrslit.net virðist hafa fengið vondar heimildir. Vefurinn sýndi Fjarðabyggð 2-0 yfir í hálfleik og 4-2 sem lokatölurnar.
Í Fjarðabyggðarhöllinni tapaði Leiknir 1-3 fyrir Aftureldingu í Lengjudeild karla. Izaro Sanchez kom Leikni yfir strax á annarri mínútu en gestirnir jöfnuðu fimm mínútum fyrir leikhlé og bættu tveimur við um miðjan seinni hálfleik. Leiknir er í næst neðst sæti með 11 stig, jafn mörg og Þróttur en verra markahlutfall. Liðin eru þremur stigum á undan Magna en fjórum á eftir Aftureldingu og Víkingi Ólafsvík.
Mynd: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir