Fjarðabyggð vann ÍA
Aron Smárason skoraði þrennu í sínum fyrsta leik fyrir Fjarðabyggð þegar liðið vann ÍA annað árið í röð í Fjarðabyggðarhöllinni 3-2 í gær. Höttur vann Aftureldingu á Fellavelli í 2. deild.
Skagamenn komust tvisvar yfir á Eskifjarðarvelli í gær. Andri Júlíusson skoraði fyrsta markið á 18. mínútu en Aron jafnaði sjö mínútum síðar. Andri Adolfsson kom Skagamönnum aftur yfir á 50. mínútu og fengu þeir nokkur tækifæri til að bæta við mörkum áður en Aron jafnaði öðru sinni á 78. mínútu. Í lok venjulegs leiktíma bætti hann síðan við þriðja markinu.
Aron er 26 ára Njarðvíkingur sem skipti fyrir seinasta tímabil yfir í Breiðablik. Þar spilaði hann fimm leiki seinasta sumar en skoraði ekkert mark. Hann var lánaður til Fjarðabyggðar út sumarið í lok seinustu viku. Fjarðabyggð fékk einnig lánaðan Felix Hjálmarsson frá Fylki, tvítugan leikmann sem getur spilað hvar sem er á vellinum, áður en fardögum lauk.
Í Fellabæ vann Höttur Aftureldingu, sem lék í 1. deild í fyrra, 2-1. Elvar Ægisson skoraði fyrsta markið eftir rúma mínútu þegar hann náði aukaspyrnu sem Mosfellingar voru í vandræðum með að koma í burtu. Gísli Freyr Brynjarsson jafnaði um miðjan seinni hálfleik eftir að Hattarmenn höfðu misst boltann frá sér.
Gísli var síðan rekinn út af þegar hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að brjóta á Högna Helgasyni rétt fyrir leikslok. Stefán Þór Eyjólfsson, fyrirliði Hattar, skoraði sigurmarkið úr aukaspyrnunni lengst úti á velli. Jón Þór Pálmason, þjálfari Hattar sem stýrði liðinu í sínum fyrsta deildarleik í gær, og skiptimaðurinn Stefán Ingi Björnsson, hlupu inn á völlinn í fagnaðarlátunum og fengu báðir brottvísun fyrir.
Högni lék í gær sinn fyrsta leik fyrir Hött í fjögur ár en hann kom frá Breiðabliki að láni. Hann hafði áður verið samningsbundinn Keflavík og leikið með Fjarðabyggð í fyrra. Markvörðurinn Þórir Guðnason, sem er í láni frá Haukum, lék í gær sinn fyrsta leik fyrir Hött.