Fjarðabyggð fallin og Leiknir þarf kraftaverk

Lið Fjarðabyggðar er fallið úr fyrstu deild karla í knattspyrnu eftir ósigur gegn Fram um helgina. Huginn er nánast öruggur með sitt sæti nema undir og stórmerki gerist hjá Leikni Fáskrúðsfirði.


Leiknir F eina austanliðið sem vann

Í Fjarðabyggðahöllinni beið það verkefni Leikni Fáskrúðsfirði að taka á móti nöfnum sínum úr Reykjavík. Í stuttu máli þá skoraði Kristófer Páll Viðarsson eina mark leiksins og það fyrir heimamenn og Leiknir F því með 18 stig.

Huginn, sem var með 21 stig fékk HK í heimsókn til sín á sinn annan heimavöll, Fellavöll. Þar var hægt að tala um „sex stiga leik“ því HK hafði einungis 19 stig fyrir heimsókn sína austur.

Liðið flaug suður með 3 stig og 22 í heildina eftir 0-4 burst gegn Huginn, sem var þó betra liðið á löngum kafla í leiknum. Því miður misstu Seyðfirðingar hausinn á síðustu mínútum leiksins og stórtap því staðreynd.

Sú staðreynd að HK nældi sér í stigin þrjú í Fellabæ þýddi að Fjarðabyggð varð að næla sér í að minnsta kosti eitt stig í Laugardalnum á móti Fram til þess að eiga möguleika á að halda sér uppi.

Á 62. mínútu kom Dimitrov Zelkjo Fjarðabyggð yfir 0-1 og á þeim tímapunkti leit út fyrir að fótboltaáhugamenn fengju alveg hrikalega spennandi lokaumferð.

Aftur á móti og ekki í fyrsta skipti í sumar kastaði Fjarðabyggð stigunum frá sér og tvö mörk Fram á síðasta korterinu sendir liðið niður í aðra deild en liðið hefur einungis unnið einn heimaleik í allt sumar.

Staðan eftir fyrri helming mótsins var Fjarðabyggð hagstæð og liðið lauk fyrri umferðinni með sigri á Haukum þann 16. júlí. Síðan hefur liðið ekki unnið leik en gert fjögur jafntefli.

Til að Leiknir haldi sér uppi og Huginn falli

Eins og kom fram þá þarf Leiknir F á hálfgerðu kraftaverki að halda til að halda sér uppi.

Liðið er þremur stigum á eftir Huginn en það sem gerir hlutina enn verri er að markatalan er þeim óvinveitt en liðið er með sjö mörkum verra markahlutfall en Seyðfirðingar.

Bæði lið spila úti um næstu Helgi, Huginn fer á Selfoss og Leiknir F mætir HK. Ef að segjum að Huginn tapi með fjórum mörkum aftur og Leiknir F gangi frá HK með þremur mörkum þá myndi Leiknir halda sér uppi á skoruðum mörkum. Það er heldur ósennilegt en aldrei segja aldrei.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar