Fjarðabyggð féll niður um deild

Botnbaráttunni í 2. deild karla er lokið í ár þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir. Knattspyrnufélagið Kári á Akranesi féll í gær eftir að hafa tapað 5-0 gegn Þrótti Vogum og í dag lauk baráttunni formlega þegar Fjarðabyggð tapaði á Eskjuvelli gegn Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar 4-0.


Fyrr í dag lék Leiknir F. í Vesturbænum gegn KV. Liðin börðust á sitthvorum enda deildarinnar, Leiknir í botnbaráttu en KV um sæti í næstefstu deild. Leiknum lauk með 2-0 sigri KV þar sem bæði mörk KV komu í fyrri hálfleik en Leiknismanninum Almari Daða Jónssyni var vikið útaf á 80. mínútu þegar hann fékk að líta sitt annað gula spjald.


Stuðningsmenn Fjarðabyggðar voru því meðvitaðir um tap Leiknis F. þegar leikur Fjarðabyggðar og KF hófst. Með sigri hefði Fjarðabyggð haldið í vonina um að halda sér uppi í síðustu tveimur leikjum tímabilsins. Fjarðabyggð sá þó aldrei til sólar í leiknum og var staðan orðin 3-0 KF í vil í fyrri hálfleik. KF bætti svo við marki undir lok leiks og tryggðu sér góðan 4-0 sigur.


Fjarðabyggð gekk afar illa á tímabilinu og unnu ekki sinn fyrsta leik fyrr en 18. ágúst. Í kjölfarið kom annar sigurleikur sem vakti upp veika von um að liðið gæti haldið sér uppi. Sigrarnir komu þó of seint og mun liðið því leika í þriðju deild að ári. Með falli Kára og Fjarðabyggðar hefur Leiknir F. hins vegar tryggt veru sína í deildinni að ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar