Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir áfram í bikarnum
Kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis tryggði sér um helgina sæti í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu. Helgin var annars erfið hjá austfirsku liðunum.Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Sindra 0-2 á Hornafirði. Halldóra Birta Sigfúsdóttir skoraði fyrsta markið á 21. mínútu og Hafdís Ágústsdóttir það seinna á 42. mínútu. Næsta umferð bikarkeppninnar verður leikum um mánaðamótin.
Í annarri deild karla náði Fjarðabyggð í sitt fyrsta stig með 1-1 jafntefli gegn Þrótti í Vogum. Vice Kendes jafnaði fyrir Fjarðabyggð á 79. mínútu.
Leiknir tapaði 2-5 fyrir Haukum á heimavelli. Guðmundur Arnar Hjálmarsson varð fyrir því óláni að koma Hafnfirðingum yfir með sjálfsmarki á 34. mínútu en Stefán Ómar Magnússon jafnaði á 60. mínútu. Í kjölfarið fylgdu hins vegar þrjú mörk frá Tómasi Leó Ásgeirssyni, sem breyttu stöðunni í 1-4 og gestirnir skoruðu eitt mark enn áður en Björgvin Stefán Pétursson minnkaði muninn á 90. mínútu. Austfjarðaliðin eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar.
Í þriðju deild karla tapaði Einherji 0-2 fyrir KFG. Fyrra markið kom á 43. mínútu en það seinna í uppbótartíma í seinni hálfleik. Í kjölfar þess fékk Brianna Curtis, liðsstjóri Einherja, rautt spjald.
Huginn/Höttur er efst í deildinni, eina liðið sem unnið hefur tvo fyrstu leikina. Það tekur á móti Einherja á fimmtudagskvöld.
Mynd: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir