Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. á leið í úrslitakeppni
Í gær lék Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. mikilvægan leik í 2. deild kvenna þar sem liðið gat með sigri tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar um að leika í 1. deild að ári.
Liðið mætti KM, Knattspyrnufélaginu Miðbæ, frá Reykjavík og vann stórsigur 24-0, sem er stærsti sigur í sögu félagsins. Alexandra Tomas og Freyja Karín Þorvarðardóttir skoruðu báðar sex mörk en þær eru markahæstar í deildinni, Freyja með 18 mörk og Alexandra 17. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. á aðeins einn leik eftir í deildinni en hann er gegn Einherja. Sá leikur getur skipt máli í því hvaða lið Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. fær í úrslitakeppninni.
Fleiri austfirsk lið léku um helgina. Á laugardaginn lék Leiknir F. gegn Reyni Sandgerði og Fjarðabyggð gegn KV í 2. deild karla. Leiknir F. tapaði sínum leik 4-1 og Fjarðabyggð tapaði einnig 2-0 þar sem Isaac Owusu Afriyie fékk rautt spjald. Fjarðabyggð situr á botni deildarinnar með fimm stig eftir fimmtán leiki og níu stig eru upp í Leikni F. í tíunda sæti. Það er því fátt sem virðist geta bjargað Fjarðabyggð í síðustu sjö leikjunum.
Í þriðju deild karla lék Einherji á útivelli við Elliða í spennuþrungnum leik. Staðan í hálfleik var 1-1 þar sem Alejandro Barce Lechuga skoraði mark Einherja en Einherji var manni færri frá 29. mínútu eftir að Cristofer Minano fékk beint rautt spjald. Á 76. mínútu kom Björn Andri Ingólfsson Einherja í 2-1 forystu. Einherji virtist ætla að sigla stigunum þremur heim en á lokamínútu leiksins jafnaði Jónas Breki Svavarsson fyrir Elliða og í uppbótatíma bætti Benedikt Daríus Garðarsson við marki fyrir Elliða og úr varð að Einherji tapaði leiknum 3-2. Úrslitin voru dýrkeypt fyrir Einherja sem sitja á botni þriðju deildar með tíu stig eftir fimmtán umferðir og þrjú stig upp í öruggt sæti.