Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. vann úrslitakeppnina

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. lauk frábæru knattspyrnusumri í gær með því að vinna úrslitakeppnina í 2. deild en fyrr í sumar hafði liðið orðið deildarmeistari og einnig tryggt sér sæti í 1. deildinni að ári með því að leggja Fram að velli í undanúrslitum úrslitakeppninnar.


Í úrslitaleiknum í gær var andstæðingur Fjölnir en keppt var á hlutlausum velli, Boganum á Akureyri, og fór leikurinn 3:1.
Fyrsta mark leiksins skoraði Fjölnir á 60. mínútu. Ísabella Sara Halldórsdóttir tók hornspyrnu fyrir Fjölni sem sveif yfir alla í teignum og endaði í fjærhorninu.


F/H/L lagði allt í sölurnar að jafna leikinn og tókst það á 77. mínútu. Michaela Ann Loebel vann boltann á miðsvæðinu og átti mjög góðan sendingu inn fyrir vörn Fjölnis á Bayleigh Ann Chaviers sem lyfti boltanum yfir Margréti Ingþórsdóttur, markmann Fjölnis, og í átt að markinu þar sem Freyja Karín Þorvarðardóttir kom á ferðinni og renndi boltanum í autt markið.

Það vantaði ekki spennuna og hitann í leikinn. Með tveggja mínútna millibili á lokamínútum leiksins fékk Halldóra Birta Sigfúsdóttir að líta tvö gul spjöld. Það fyrra fyrir brot á miðjum vellinum og á síðustu mínútu uppbótartíma þegar upp úr sauð milli hennar og Ólínu Sif Hilmarsdóttur. Ólína hafði brotið á Halldóru og ýtti Halldóra aðeins við Ólínu og fyrir það uppskar hún annað gult og þar með rautt. Ólína brást hins vegar afar illa við og hrinti Halldóru býsna kröftuglega til jarðar og fékk beint rautt spjald fyrir vikið en Ólína hafði einungis verið inn á í um fimm mínútur.

Staðan var því 1:1 þegar dómari leiksins, Patrik Freyr Guðmundsson, flautaði af síðari hálfleikinn og grípa þyrfti til framlengingar og bæði lið búin að missa leikmann af velli með rautt spjald.

Framlengingin var eign F/H/L og komst liðið yfir snemma framlengingarinnar. Barbara Kopácsi átti fína sendingu af miðsvæðinu fram á Freyju Karínu Þorvarðardóttur sem átti gott samspil við Björgu Gunnlaugsdóttur sem lauk með því að Freyja komst í góða stöðu innan vítateigs og skoraði með góðu skoti.

Freyja Karín átti svo eftir að bæta við þriðja marki sínu á 114. mínútu. Björg Gunnlaugsdóttir átti þá flotta sendingu inn í vítateig af hægri kanti þar sem Freyja átti frábærlega tímasett hlaup inn í teig og lagði boltann snyrtilega í markið. Það yrði óskandi fyrir F/H/L að halda þessum efnilegum stelpum í félaginu í einhvern tíma, en báðar gætu þær náð býsna langt í framtíðinni. Freyja fædd árið 2004 og Björg árið 2006.

Þegar flautað var til leiksloka fagnaði F/H/L vel og innilega sigrinum enda kórónaði sigurinn frábært tímabil liðsins og óhætt að segja að framtíðin er björt í knattspyrnunni á Austurlandi en liðið er enn mjög ungt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.