Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir fagnaði sigri í annarri deild – Myndir
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann aðra deild kvenna í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Fjölni í framlengdum úrslitaleik í Boganum á Akureyri á föstudagskvöld. Þjálfari liðsins kveðst nær allan tímann hafa verið viss um að sigurinn færi austur.Fjölnisstelpur skoruðu fyrsta mark leiksins, beint úr hornspyrnu, eftir um klukkutíma leik. Freyja Karín Þorvarðardóttir jafnaði hins vegar á 78. mínútu.
Í uppbótartíma venjulegs leiktíma fékk Halldóra Birta Sigfúsdóttir sitt annað gula spjald fyrir að ýta við leikmanni Fjölnis. Sú fékk reyndar líka rautt spjald fyrir annars vegar brot á Halldóru, hins vegar að hrinda henni.
Freyja Karín skoraði aftur eftir um fimm mínútna leik í framlengingu og innsiglaði þrennuna á 114. mínútu. Tíu mínútum fyrr hafði annar þjálfara Fjölnis fengið sitt seinna gula spjald fyrir mótmæli. Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.
Aldrei áhyggjur af vítakeppni
„Þetta var hörkuleikur en ég hafði aldrei áhyggjur á að hann færi í vítaspyrnukeppni. Mér fannst við ná meiri tökum á honum eftir sem á leið og eiga að skora fleiri mörk í venjulegum leiktíma.
Það sást hins vegar að þetta var úrslitaleikur því leikmenn voru ekki jafn rólegir með boltann og venjulega. Það átti við um bæði lið,“ sagði Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.
Liðin voru bæði búin að tryggja sig upp um deild fyrir leikinn. „Það er búið að vera markmiðið okkar í nokkurn tíman og við lögðum á það mikla áherslu síðasta vetur. Þess vegna er tilfinningin nú frábær. Eins og ég hef áður sagt þá held ég að þessi árangur geti skipt austfirska kvennaknattspyrnu miklu máli.“
Tugir stuðningsmanna Austfjarðaliðsins gerðu sér ferð norður. „Það var æðislegt að sjá þennan hóp. Það er við hæfi að þakka öllum þeim sem komið hafa að þessu, hvort sem það eru stuðningsmenn, stjórnarfólk eða hópurinn í kringum liðið. Þetta hefur verið frábært sumar.“
Markverðirnir tóku við bikarnum
Markverðirnir Steinunn Lilja Jóhannesdóttir og Anne Bailey tóku við bikarnum úr hendi Þórodds Hjaltalín, formanns dómaranefndar KSÍ. Þær hafa verið fyrirliðar liðsins í sumar. Anne handarbrotnaði í bikarleik í vor og því spilaði Steinunn alla deildarleikina. Hún meiddist hins vegar fyrir seinni undanúrslitaleikinn.
„Ætlunin var að vera með tvo góða markverði sem gætu æft saman og bætt hvorn annan, en líka vera vel sett ef eitthvað kæmi upp á. Daginn fyrir seinni undanúrslitaleikinn kom í ljós að axlarmeiðsli Steinunnar voru alvarlegri en við héldum. Anne hafði æft vel en ekki markmannsæfingar. Það kom í ljós að morgni leikdags að hún gæti spilað. Hún fór þá í markmannshanska í fyrsta sinn í þrjá mánuði. Það var léttir eftir svefnlitla nótt.“
Myndir: Akureyri.net/Skapti Hallgrímsson
0-1
1-1 Fjölnir
Rauð spjöld
2-1
3-1