Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann sjötta leikinn í röð

Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknir í annarri deild kvenna vann um helgina sinn sjötta leik í röð. Í þriðju deild karla hafði Höttur/Huginn betur gegn Augnabliki í toppslag.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Hamrana nyrðra um helgina 1-4. Michaela Loebel kom austanliðinu yfir strax á fimmtu mínútu og Bayleigh Chaviers bætti við öðru á 25. Heimastúlkur minnkuðu muninn sjö mínútum síðar.

Alexandra Taberner kom Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í 1-3 strax á annarri mínútu seinni hálfleiks og Hafdís Ágústdóttir skoraði úr víti eftir klukkutíma leik. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki. Lið Einherja var í fríi um helgina.

Í annarri deild karla batt Þróttur Vogum endi á þriggja leikja sigurgöngu Leiknis Fáskrúðsfiðri en liðin spiluðu eystra. Gestirnir komust yfir strax á þriðju mínútu en Inigo Albizuir jafnaði á þeirri 20. Sigurmarkið kom tólf mínútum fyrir leikslok.

Fjarðabyggð hefur ekki tapað síðustu fjórum leikjum en liði hefur samt lítið komist áfram því þeir hafa allir endað með jafntefli. Liðið var grátlega nærri fyrsta sigrinum gegn ÍR í Breiðholti um helgina. Arnór Sölvi Harðarson kom Fjarðabyggð yfir á 34. mínútu en Jordian Farahani, fyrrum leikmaður Hattar, jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Bæði Fjarðabyggð og Leiknir eru í neðri hluta deildarinnar.

Tvær umferðir voru leiknar í þriðju deild karla í síðustu viku.

Höttur/Huginn tapaði sínum fyrsta leik í sumar gegn Elliða 3-0 á miðvikudagskvöld. Gæfan gekk aftur í lið með liðinu þegar það tók á móti Augnabliki í toppslag á laugardag.

Knut Erik Mykleburst kom Hetti/Huginn yfir á 33. mínútu og Pablo Carrascosa skoraði annað mark tíu mínútum síðar. Rétt áður en flautað var til hálfleiks minnkuðu gestirnir úr Kópavogi muninn úr vítaspyrnu.

Fyrirliði þeirra fékk rautt spjald um miðjan seinni hálfleikinn en manni færri jafnaði Augnablik samt tíu mínútum fyrir leiksloks. Það entist ekki lengi, Arnar Eide Garðarsson skoraði sigurmarkið fyrir Hött/Huginn tveimur mínútum síðar.

Höttur/Huginn er efstur í deildinni með 19 stig en Ægir í öðru sæti með 16. Þorlákshafnarliðið vann Einherja 0-2 á Vopnafirði í gær. Einherjamenn sóttu á móti stig gegn ÍH síðasta þriðjudag. Eiður Orri Ragnarsson kom Vopnfirðingum yfir á 8. mínútu og Alejandro Barca skoraði annað mark á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Hafnfirðingar minnkuðu muninn á 78. mínútu og jöfnuðu á 90. mínútu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.