Fjórir austfirskir Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum

Fjórir keppendur á vegum UÍA hafa að undanförnu orðið Íslandsmeistarar í frjálsíþróttum. Austfirskt íþróttafólk hefur að auki bætt sig verulega á þeim Meistaramótum Íslands í frjálsíþróttum sem búin eru.

Björg Gunnlaugsdóttir varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari á Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem haldið var á Laugardalsvelli. Björg, sem keppir í 13 ára aldursflokki, sigraði í 100 metra hlaupi á tímanum 13,57 sekúndur og 600 metra hlaupi á tímanum 1:49,35 mín. Hún varð að auki í öðru sæti í langstökki þar sem hún stökk 4,74 metra. Björg keppti einnig í spjótkasti þar sem hún varð fjórða.

Birna Jóna Sverrisdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi 12 ára með kasti upp á 9,42 metra. Birna Jóna keppti einnig í spjótkasti þar sem hún varð fimmta.

Viktor Ívan Vilbergsson hlaut silfurverðlaun í 100 metra hlaupi 14 ára á tímanum 12,86 sek. og fékk brons í 600 metra hlaupi á 1:41,94 mín. Viktor Ívan keppti einnig í langstökki.

Hrafn Sigurðsson varð annar í 600 metra hlaupi 13 ára á tímanum 1:46,06. Hann keppti líka í 100 metra hlaupi.

Hjördís María Sigurðardóttir keppti í langstökki og 100 metra hlaupi 13 ára en hún bætti sinn besta árangur í báðum greinum.

Viku áður varð eldri bróðir hennar, Friðbjörn Árni Sigurðarson Íslandsmeistari í spjótkasti á Meistaramóti 15-22ja ára sem haldið var á Selfossi. Friðbjörn Árni, sem keppir í 15 ára flokki, kastaði spjótinu 37,78 metra. Hann varð einnig annar í sleggjukasti með kasti upp á 29,62 metra.

Á sama móti varð Daði Þór Jóhannsson Íslandsmeistari í hástökki þar hann fór yfir 1,72 metra. Hann varð ennfremur í öðru sæti í langstökki með stökk upp á 6,38 metra og í sama sæti í þrístökki þar sem hann stökk 13,15 metra. Í öllum greinum bætti hann sinn besta árangur.

Verðlaunahafar UÍA á mótinu um helgina. Mynd: Jóney Jónsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.