Fljótastur til að hlaupa þvert yfir Ísland
Ríflega fertugur pólskur ofurhlaupari varð í sumar fljótastur til að hlaupa frá austasta að vestasta tanga Íslands. Leiðina fór hann á 17 dögum.
Hinn 42 ára gamli Przemysław Szapar hóf ferð sína frá Gerpi klukkan átta að morgni 30. júlí.
Miðað við dagbókarfærslur hans virðist hann hafa hlaupið þaðan yfir til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar en síðan yfir Þórdalsheiði upp í Fljótsdalshérað. Áfram þaðan upp á Fljótsdalsheiði og yfir Kárahnjúkastíflu sem var reyndar lokuð daginn sem hann bar að garði en hann fékk samt leyfi til að fara yfir, enda hefði það tafið metið. Á fimmta degi var hann kominn inn í Dreka.
Szapar var kominn vestur á firði á 12 dögum, sem er líka met en tók smá stund að komast að lokapunktinum, vitanum á Bjargtöngum. Leiðin var rúmir 1.000 km og Szapar hlóp að meðaltali 61 km á dag. Bakpokinn sem hann bar á leiðinni var um 14 kg.
Áður en hann lagði af stað hafði hann flutt birgðir á valda staði á leiðinni. Í Dziennik Batycki, blaðinu sem gefið út í heimabæ hans Gdynia í Póllandi, segir Szapar að andlega hliðin hafi verið afar mikilvæg á krefjandi leið.
Mynd: Úr einkasafni