Fótbolti: Austfjarðaslagur út í veður og vind - Myndir
Varamaðurinn Ignacio Poveda Gaona var Leiknismönnum mikilvægur þegar hann skoraði jöfnunarmark liðins í Austfjarðaslagnum gegn Fjarðabyggð á Eskifjarðarvelli í gær. Strekkingsvindur réðu meiru en leikmennirnir um hvernig leikurinn spilaðist.
Leikmönnum reyndist afar erfitt að hafa nokkra stjórn á hvert boltinn fór. Ef honum var á nokkurn hátt spyrnt upp á við tók vindurinn hann og snéri honum til baka svo nær ómögulegt var að átta sig á lendingarstað. Liðunum reyndist þess vegna auðvelt pressa andstæðinginn hátt og vinna boltann.
Fjarðabyggð lék undan vindi í fyrri hálfleik og hélt Leikni nær alfarið inn á eigin vallarhelmingi. Þeim gekk hins vegar illa að skapa sér opin marktækifæri fyrr en eftir fyrsta markið á 30. mínútu. Vindurinn átti þátt í því með að gera fasta aukaspyrnu Víkings Pálmasonar af hægri kanti enn fastari þannig boltinn skoppaði og sveif í gegnum varnarpakka Leiknis og í hornið fær.
Tveimur mínútum síðar skaut Jón Barðdal í hliðarnetið eftir að hafa komist einn upp vinstri vænginn og síðan var skalli Emils Stefánssonar af markteig varinn í horn.
Annað markið kom á 41. mínútu, aftur eftir fasta aukaspyrnu Víkings. Þessi kom að þessu sinni frá hægri þvert yfir teiginn í hnéhæð á fjærstöngina þar sem Hákon Þór Sófusson mætti til að pikka boltanum í netið.
Leikurinn snérist við í seinni hálfleik og Jesus Suarez minnkaði muninn á 59. mínútu þegar hann kallaði boltann í netið af teignum eftir háa sendingu sem fleytt var áfram frá hægri.
Rétt eins og í fyrri hálfleik fylgdu fleiri fín færi eftir markið en skot Almars Daða Jónssonar af teignum var varið framhjá. Sólmundur Björgúlfsson átti síðan áhugavert skot nánast frá miðju sem fékk aukinn kraft úr vindinum og skoppaði rétt framhjá markinu.
Vindinn lægði ögn í seinni hálfleik auk þess sem Fjarðabyggð gekk betur að eiga við hann með stungum upp í hornið. Eftir góða sókn fékk Sveinn Fannar Sæmundsson færi á markteigshorninu en skaut í slá og yfir.
Jesus Suarez átti skot sem Ásgeir Magnússon, nýr markvörður Fjarðabyggðar og fyrrum markvörður Hattar, varði í slá og yfir. Jöfnunarmarkið kom hins vegar á 88. mínútu þegar Ignacio skallaði boltann aftur fyrir sig eftir langt innkast sem fleytt var áfram, ekki ósvipað fyrra markinu.
Fjarðabyggð fékk færi í uppbótartíma þegar Jón Barðdal komst einn gegn markverði en Adrian Rodriguez lokaði markinu vel.
Huginn heimsótti Grindavík og var yfir fram í síðustu sókn leiksins. Heimamenn komust yfir á 16. mínútu en Pétur Óskarsson jafnaði á 24. mínútu og Jaime Guijarro kom Huginn yfir átta mínútum síðar með einu af mörkum ársins þegar hann hamraði boltann upp í vinkilinn lengst utan af velli.
Grindvíkingar sóttu stanslaust eftir þetta en varð líkt ágengt fyrr en í uppbótartíma, þökk sé stórleik Atla Gunnars Guðmundssonar sem varði hvert skotið á fætur öðru, þar með talið eitt víti.
Stigin skipta Huginn og Leikni hins vegar litlu þar sem Haukar og HK, þau lið sem næst hafa verið fallbaráttunni, unnu bæði í gær. Þau eru jöfn Fjarðabyggð að stigum. Eitt stig úr tveimur leikjum við nágranna sína hafa dregið liðið aftur að fallbaráttunni.
Höttur náði hins vegar mikilvægum sigri gegn Vestra á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi. Ekki leit vel út þegar gestirnir skoruðu strax á fyrstu mínútu og aftur á 13. mínútu.
Jordan Tyler minnkaði muninn tíu mínútum fyrir leikhlé en þeir Garðar Grétarsson og Högni Helgason skoruðu sitt markið hvor í seinni hálfleik. Fimm stig frá fallsætinu veita andrými að sinni.
Myndir: Gunnar Gunnarsson og Ásbjörn Eðvaldsson