Fótbolti: Bæði FHL og Einherji áfram í bikarnum

Bæði Einherji og FHL komust um síðustu helgi áfram úr fyrstu umferð bikarkeppni kvenna með að leggja mótherja sína af Norðurlandi.

Einherji vann Dalvík/Reyni 0-3. Öll mörkin komu í seinni hálfleik. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði fyrst á 61. mínútu, Karólína Dröfn Jónsdóttir bætti við öðru á 73. mínútu og Coni Ion skoraði það þriðja á í uppbótartíma.

FHL lagði Völsung 1-2 á Húsavík. Emma Hawkins skoraði bæði mörkin með stuttu millibili. Það fyrra á 17. mínútu en það seinna sex mínútum síðar. Húsavíkurliðið minnkaði muninn tíu mínútum seinna og þar við sat.

Einherji og FHL mætast í næstu umferð. Áformað er að það verði miðvikudaginn 1. maí. Einherji á heimaleik en ekki hefur enn verið staðfest hvar verði spilað.

Höttur/Huginn leikur gegn úrvalsdeildarliði Fylkis í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 á Fellavelli.

Mynd: Dóri Sig


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar