Fótbolti: Einherji felldi toppliðið af stalli með átta mörkum - Myndir

Einherji hitti á frábæran dag þegar liðið tók á móti ÍH, sem var í efsta sæti annarrar deildar kvenna, síðasta föstudag. Vopnafjarðarliðið vann leikinn 8-0.

ÍH hafði fyrir leikinn unnið fyrstu þrjá leiki sína og var með úr þeim markatöluna 27-1. Það breyttist snarlega.

„Þetta var góður leikur af okkar hálfu. Við vissum við værum að spila við gott lið og þyrftum að mæta tilbúnar, sem við gerðum sannarlega. Eftir þrjár mínútur var staðan orðin 2-0, sem auðveldaði verkefnið því þær þurftu framar og þá opnuðust svæði sem við nýttum okkur,“ segir Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Einherja.

Einherji skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik, þótt liðið léki á móti strekkingsvindi. „Við byrjuðum á móti vindi. Ég veit ekki hvort ÍH liðið taldi sig hafa einhvern hag af að hafa hann í bakið en við æfum á vellinum, þar er oft vindur þannig við vitum hvernig best er að spila, hvort sem vindurinn er með okkur, á móti eða á hlið.“

Út á völl eftir tvo leiki


Eftir fjóra leiki hefur Einherji unnið tvo og tapað tveimur. Ekki er nýtt að tíma taki fyrir liðið að komast af stað en í fyrra small það saman þegar á leið tímabili og átti framúrskarandi endasprett.

„Við höfum verið seinar í gang eins og oft áður, sérstaklega vegna aðstöðuleysis. Fyrstu tveir leikirnir voru búnir þegar við komumst úr íþróttahúsinu út á völl. Fyrst eftir það erum við að venjast því að vera á stærri velli.

Í fyrra unnum við níu af síðustu tíu leikjunum. Við höfum sýnt að við getum unnið öll lið en þetta snýst um dagsformið og að hafa trú á verkefninu. Leikurinn um síðustu helgi ætti að hafa veitt okkur sjálfstraust fyrri framan markið.

Við höfum líka mætt góðum liðum. Eftir næstu leiki verðum við búnar með fimm af þeim liðum sem spáð var sex efstu sætunum. Það skiptir þó ekki öllu máli hvenær er spilað við þau, það þarf að gera það hvort sem er.“

Landsliðsmarkvörður Moldóvu


Nokkrar breytingar urðu á Einherjaliðinu í vetur. Sem kunnugt er þá lést leikmaður liðsins í slysi í lok sumars, ein skipti yfir í Keflavík, ein meiddist og sú fjórða kom ekki aftur. Í staðinn komu fjórir leikmenn frá Spáni.

„Við erum bara með 16-17 manna leikhóp. Þess vegna þurfum við alltaf að fá aðra ef ein fer. Það hefur verið ómögulegt að fá íslenska leikmenn hingað,“ segir Víglundur.

Þá var liðið án markvarðarins Margaritu Panovu því hún er landsliðsmarkvörður Moldóvu. „Hún kemur í næsta leik. Hún er toppstelpa og frábær markvörður sem er að spila sitt þriðja tímabil hér sem sýnir að henni líður vel hjá okkur.“

Í staðinn var Steinunn Lilja Jóhannesdóttir, sem kom frá FHL í vor. „Hún hefur hjálpað okkur, bæði nú og í fyrstu umferð bikarkeppninnar. Steinunn er vel spilandi sem hentar okkar leikstíl og hefur reynst okkur ótrúlega vel.“

Coni Ion og Karólína Dröfn Jónsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor og þær Claudia Maria Merino og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir sitt markið hvor. Einherji er sem stendur í 6. sæti deildarinnar. Leikin er einföld umferð þar sem öll lið spila 12 leiki fyrir verslunarmannahelgi. Þá skiptist deildin í þrennt þannig að liðin í 1. – 5. sæti, 6. – 9. sæti og 10. – 13. sæti leika innbyrðis um endanlega niðurröðun.

KFA og Höttur/Huginn hlið við hlið


Af úrslitum annarra austfirskra liða um síðustu helgi er það að frétta að FHL vann Aftureldingu 2-0 í fyrstu deild kvenna. Samantha Smith og Emma Hawkins skoruðu mörkin í seinni hálfleik. Liðið byrjar tímabilið ágætlega og er í fjórða sæti.

Höttur/Huginn vann Kormák/Hvöt 3-1 í annarri deild karla en leikið var á Egilsstöðum. Martim Cardoso kom Hetti yfir á 11. mínútu en gestirnir jöfnuðu skömmu fyrir leikhlé. Höttur/Huginn komst aftur yfir með sjálfsmarki kortéri fyrir leikslok og í uppbótartíma skoraði Heiðar Logi Jónsson þriðja markið.

KFA tapaði á móti 4-0 fyrir Fjallabyggð á Ólafsfirði. Austfirsku liðin eru hlið við hlið í 6. og 7. sæti deildarinnar.

Spyrnir tapaði heima fyrir Þorláki í 5. Deild karla. Unnar Birkir Árnason minnkaði muninn fyrir Spyrni.

Fotbolti Einherji Ih Mai24 0003 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0011 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0016 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0019 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0022 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0026 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0031 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0032 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0034 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0046 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0056 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0058 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0059 Web
Fotbolti Einherji Ih Mai24 0060 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar