Fótbolti: Ellefu mörk í stórsigri Völsungs á KFA

Völsungur frá Húsavík tryggði sér sæti í fyrstu deild karla á næstu leiktíð með 3-8 sigri á KFA í Fjarðabyggðarhöllinni um helgina. Höttur/Huginn sendi á sama tíma Fjallabyggð niður um deild.

Húsvíkingar fóru inn í leikinn vitandi að sigur myndi tryggja þá upp um deild. Úrslit leiksins voru aldrei í vafa. Gestirnir skoruðu strax á þriðju mínútu, voru komnir í 0-3 eftir 12. mínútur. Patrekur Aron Grétarsson skoraði á 25. mínútu en Völsungar bætti tveimur mörkum við fyrir hálfleik.

Þeir voru komnir í 1-7 áður en Eiður Orri Ragnarsson minnkaði muninn þegar kortér var eftir. Matheus Gotler skoraði þriðja mark KFA á 90. mínútu en engu að síður var enn tími eftir fyrir gestina til að skora í uppbótartíma.

Jakob Gunnar Sigurðsson skoraði fjögur mörk fyrir Völsung og varð markahæstur í deildinni með 25 mörk. Hann er 17 ára gamall og flutti á Húsavík fyrir tveimur árum en lék áður með Aftureldingu. Næstur honum kom Gonzalo Zamorano, sem fyrst kom til Íslands sumarið 2017 og lék þá með Huginn Seyðisfirði, með 17 mörk fyrir Selfoss. Þar á eftir voru jafnir með 13 mörk, Eiður Orri og Martim Cardoso.

Martim skoraði fyrsta mark Hattar/Hugins í 2-3 sigri á Fjallabyggð fyrir norðan. Mark hans kom á 6. mínútu og á 33. mínútu bætti Danilo Milenkovic við öðru. Bjarki Fannar Helgason bætti við þriðja markinu strax í byrjun seinni hálfleiks.

Tvö mörk á fimm mínútum komu Fjallabyggð aftur inn í leikinn og heimaliðið hafði tæpar 40 mínútur í heildina til að jafna. Hefði það tekist þá hefði liðið haldið sér uppi á skoruðum mörkum og fellt Kormák/Hvöt í staðinn. Svo fór ekki og Fjallabyggð fylgdi Reyni Sandgerði niður.

Lokastaða austfirsku liðanna í deildinni


KFA lauk sumrinu í 5. sæti sæti með 35 stig, átta stigum frá Völsungi. Framan af sumri var KFA í hópi þeirra liða sem börðust um að fylgja deildarmeisturum Selfoss upp um deild en fataðist illa flugið þegar leið á sumarið. Þjálfaraskipti um verslunarmannahelgina dugðu ekki til.

Höttur/Huginn varð hins vegar í 7. sæti með 30 stig, jafnt Haukum en með lakara markahlutfall. Sumarið var sveiflukennt, það vann fimm af sex leikjum sínum í júlí en tapaði síðan fimm af síðustu sjö leikjunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.