Fótbolti: FHL á toppinn eftir átta marka leik gegn Gróttu

FHL er eitt í efsta sæti Lengjudeildar kvenna eftir 6-2 sigur á Gróttu í leik liðanna í Fjarðabyggðarhöllinni á sunnudag. Liðið hefur unnið fjóra af fyrstu sex leikjum en þeir sem tveir sem unnust ekki sitja enn í þjálfaranum.

Það var Emma Hawkins sem skoraði fyrsta markið á 20. mínútu og fjórum mínútum síðar var FHL komið í 2-0 eftir sjálfsmark Gróttustúlkna. Gestirnir jöfnuðu hins vegar með mörkum á 28. og 33. mínútu áður en Samantha Smith kom FHL aftur yfir með marki rétt fyrir leikhlé.

Emma skoraði aftur á 48. mínútu og Björg Gunnlaugsdóttir skoraði tveimur mínútum síðar. Þar með var FHL komið í 5-2 eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Emma fullkomnaði síðan þrennu sína á 82. mínútu.

FHL er nú eitt í efsta sætinu með 13 stig þegar sex umferðir eru búnar, tveimur stigum frá HK og þremur frá Grindavík og Aftureldingu.

Leita enn að jafnvægi milli sóknar og varnar


„Staða okkar er samt undir væntingum. Það eru tveir leikir sem sitja í okkur. Við fengum nóg af færum í fyrsta leiknum gegn Selfossi en gerðum jafntefli. Síðan spiluðum við vel í byrjun gegn HK en var refsað grimmilega. Við héldum áfram að spila okkar leik, í stað þess að verjast og koma í veg fyrir að við töpuðum stærra en fengum þá skell.

Annað hefur verið í takt við væntingar okkar. Við spilum hraðan bolta, vinnum boltann framarlega og náum um 30 skotum í leik, sem er einstaklega mikið. Fyrir vikið erum við stundum of opnar og fáum á okkur of mörg mörk. Við erum að vinna í að ná jafnvæginu á milli sóknar og varnar til að fá okkur færri mörk,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL.

„Í leiknum um helgina byrjuðum við vel en slökum svo aðeins á pressunni þegar við erum komnar í 2-0. Þegar Grótta jafnar þá kviknar á okkur aftur. Síðan klárum við leikinn með byrjuninni í seinni hálfleik,“ bætir hann við.

Hann ítrekar að þó staðan sé góð núna þá sé ljóst að deildin verði jöfn til loka. „Það sést á því að ef Grótta hefði unnið okkur þá hefði hún verið efst. Þetta eru stórskemmtilegir leikir og þess vegna hvetjum við Austfirðinga til að mæta á völlinn og sjá hvað er að gerast hjá okkur.“

Þjálfaraskipti hjá Spyrni


Í annarri deild kvenna vann Einherji Fjölni 1-0 á Vopnafirði. Borghildur Arnarsdóttir skoraði sigurmarkið á 88. mínútu. Einherji er um miðja deild með 10 stig úr sex leikjum.

Spyrnir vann Létti 5-1 í A riðli 5. deildar karla. Jakob Jóel Þórarinsson skoraði fyrsta markið úr víti á 21. mínútu og Ármann Davíðsson jók forustuna kortéri síðar. Almar Aðalsteinsson skoraði tvö mörk í seinni hálfleik, á 56. og 65. mínútu og loks var það Óliver Árni Ólafsson á 65. mínútu. Af Spyrni er það helst að frétta að Jörgen Sveinn Þorvarðarson hefur tekið við þjálfun liðsins af Antoni Helga Loftssyni.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.