Fótbolti: FHL bætir enn í forustu sína – Myndir
FHL er komið í tíu stiga forustu í Lengjudeild kvenna og er 12 stigum frá liðunum sem geta ógnað því að það komist upp í úrvalsdeild. Í annarri deild karla hefur toppbaráttan harðnað eftir tvo tapleiki KFA í röð.FHL vann um helgina HK 6-1. Þar með hefndi FHL ófara frá fyrri leik liðanna þegar HK vann með sömu markatölu. Kópavogsliðið er enn eina liðið sem unnið hefur FHL í deildinni.
Líkt og önnur lið í deildinni var HK í miklu basli með hraða Emmu Hawkins, Samönthu Smith og Bjargar Gunnlaugsdóttur. Strax eftir fimm mínútur hafði Emma skorað úr víti. Hún fékk skömmu síðar annað sem markvörður HK varði.
Hún bætti fyrir það á 22. mínútu. Í uppbótartíma fyrir hálfleiks, sem var langur vegna meiðsla, skoraði Samantha. Emma var á ferðinni snemma í seinni hálfleik og síðan skoraði Samantha um miðjan hálfleikinn, þannig þær náðu báðar þrennu. Mark HK kom í uppbótartíma.
FHL er núna með tíu stiga forskot á Aftureldingu. Liðin mætast í Mosfellsbæ á miðvikudag. FHL er einnig með 12 stiga forskot á ÍBV og Gróttu en tvö efstu liðin fara upp um deild. Sex umferðir eru eftir af deildinni.
Annarri deild kvenna lauk um helgina, en eftir verslunarmannahelgi skiptast liðin í þrjá hópa sem leika innbyrðis um endanlega niðurröðun. Einherji endaði í fjórða sæti og mun spila við Hauka, Völsung, KR og ÍH. Liðið tapaði samt fyrir Vestra á Ísafirði um helgina. Coni Ion skoraði mark Einherja á 23. mínútu, heimaliðið jafnaði eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik og skoraði sigurmarkið svo rétt fyrir leikslok.
Hörð toppbarátta í annarri deild karla
Í annarri deild karla tapaði KFA sínum öðrum leik í röð, að þessu sinni gegn Selfossi á heimavelli. Markið kom rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Selfoss er efst í deildinni en KFA þriðja. Það mildaði hins vegar höggið að Víkingur Ólafsvík, sem er í öðru sæti, tapaði líka um helgina. Völsungur náði hins vegar KFA að stigum en Víkingur er þar fyrir ofan.
Höttur/Huginn hefur hins vegar náð góðu skriði og vann KFG í Garðabæ um helgina 2-5. Höttur/Huginn var þó 1-0 undir í hálfleik en í þeim seinni skoraði Martin Cardoso tvö mörk og þeir Rafael Caballe, Danilo Milenkov og Heiðar Logi Jónsson sitt markið hver. KFA er í sjötta sæti með 21 stig.
Í A riðli 5. deildar tapaði Spyrnir 1-2 fyrir Úlfunum. Gestirnir skorðu sín mörk áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður. Bjarki Nóel Brynjarsson skoraði mark Spyrnis snemma í seinni hálfleik.
Myndir: Unnar Erlingsson