Fótbolti: FHL gaf úrvalsdeildarliðinu leik

FHL er úr leik í bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir 3-2 tap fyrir úrvalsdeildarliði FH í Hafnarfirði í gær. Í annarri deild karla vann Höttur/Huginn sinn fyrsta leik.

FHL er deild neðar en FH en úr varð hörkuleikur í 16 liða úrslitum í bikarkeppni kvenna. FH komst yfir á 12. mínútu en Deja Sandoval jafnaði á 35. mínútu.

Samantha Smith kom FHL yfir á 65. mínútu en FH jafnaði tveimur mínútum síðar. Heimaliðið skoraði síðan sigurmarkið á 79. mínútu.

Einherji sótti sigur á Hlíðarenda gegn KH um helgina í annarri deild kvenna. Clauda Maria Daga Merino skoraði eina mark leiksins á 89. mínútu.

Í annarri deild karla vann Höttur/Huginn sinn fyrsta leik þegar KFG úr Garðabæ kom austur um helgina. Gestirnir komust yfir á 5. mínútu en Rafael Caballe jafnaði á 20. mínútu. Martim Cardoso kom Hetti/Huginn yfir á 65. mínútu og Sæbjörn Guðlaugsson skoraði þriðja markið á 79. mínútu. en Garðbæingar minnkuðu muninn á 89. mínútu.

KFA tapaði fyrir Selfossi 2-1. Eiður Orri Ragnarsson minnkaði muninn fyrir KFA tíu mínútum fyrir leikslok.

Við þann leik má bæta því að dómarinn var Jens Elvar Sævarsson. Sá spilaði níu leiki með einum af forverum KFA, Fjarðabyggð, sumarið 2007.

Það var ýmist í ökkla eða eyra hjá Spyrni sem spilaði tvo útileiki um helgina. Liðið vann fyrst KM 1-6. Ívar Logi Jóhannsson jafnaði fyrir Spyrni á 44. mínútu og staðan í hálfleik var 1-1.

Bjarki Nóel Brynjarsson og Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson skoruðu tvö mörk hvor í seinni hálfleik og Jakob Jóel Þórarinsson eitt úr víti. Á sunnudag tapaði liðið hins vegar 7-0 fyrir Höfnum í Reykjaneshöllinni.

Úr leik Hattar/Hugins og KFG um helgina. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.