Fótbolti: FHL kláruðu Grindavík manni færri
FHL náði í sigur gegn Grindavík í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu um helgina eftir þrjá leiki í röð án sigurs. Einherji vann sinn annan leik í röð í annarri deild en Spyrnir gerði tvö jafntefli í fimmtu deild karla. Þrjú rauð spjöld fóru á loft í þeim þremur leikjum sem austfirsku liðin spiluðu.Katrín Edda Jónsdóttir kom FHL yfir á 24. mínútu í Fjarðabyggðarhöllinni í gær en Grindavík jafnaði mínútu síðar. FHL komst aftur yfir með sjálfsmarki á 62. mínútu og þremur mínútum síðar bætti Björg Gunnlaugsdóttir við þriðja markinu.
FHL var því komið í vænlega stöðu þegar fyrirliðinn Rósey Björgvinsdóttir fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða á 68. mínútu. Gestirnir minnkuðu muninn þremur mínútum síðar en Björg innsiglaði sigurinn með marki á þriðju mínútu uppbótartíma.
FHL er nú í 7. sæti sæti Lengjudeildar kvenna með 13 stig úr 11 leikjum, eins og Fram en með betra markahlutfall. Sex stig eru niður í fallsætin.
Einherji vann ÍA 1-0 á Vopnafirði á laugardag. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði markið á 17. mínútu. Í uppbótartíma fékk Coni Ion beint rautt spjald en hún hafði komið inn á tíu mínútum fyrr. Einherji er í 8. sæti 2. deildar með 15 stig.
Spyrnir spilaði tvo leiki í Reykjavík um helgina. Sá fyrri var gegn KM og endaði með markalausu jafntefli. Seinni leikurinn í gær gegn SR var töluvert fjörlegri. SR komst í 3-0 áður en Jónas Pétur Gunnlaugsson minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Eyþór Magnússon lagaði stöðuna í 3-2 á 53. mínútu. Þjálfari heimaliðsins náði síðan þeim áhugaverða árangri að fá tvö gul spjöld á 75. mínútu og þar með brottvísun. Sjö önnur gul spjöld fóru á loft í leiknum. Það var hins vegar Hilmir Hólm Gissurarson sem jafnaði fyrir Spyrni á 89. mínútu og tryggði Egilsstaðaliðinu 3-3 jafntefli og stig á útivelli.
Spyrnir er í 3. – 5. sæti deildarinnar með 19 stig eins og Berserkir/Mídas og KFR en Spyrnir er með besta markahlutfallið. Samherjar eru í öðru sæti með 20 stig.
Leikið er í annarri deild karla á morgun. KF spilar gegn Fjallabyggð á Ólafsfirði en Höttur/Huginn tekur á móti Völsungi.
Mynd: Unnar Erlingsson