Fótbolti: FHL komið á topp Lengjudeildar kvenna

FHL er jafnt Aftureldingu að stigum í Lengjudeild kvenna eftir sigur á ÍBV um helgina. KFA skoraði þrjú mörk á síðustu tíu mínútum í sigri á Haukum.

FHL vann magnaðan 3-4 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum á laugardag. Öll mörk FHL komu í fyrri hálfleik enda var staðan eftir hann 1-4 en FHL lék þá undan vindi.

Samantha Smith skoraði fyrsta markið á 5. mínútu og Emma Hawkins það annað á 9. mínútu. ÍBV minnkaði muninn á 15. mínútu, þriðja mark FHL var sjálfsmark á 24. mínútu og Samantha það fjórða á 32. mínútu. ÍBV skoraði tvö mörk í seinni hálfleik en það breytti engu um úrslitin.

FHL er jafnt Aftureldingu í efstu sætum deildarinnar en Mosfellsbæjarliðið er með betra markahlutfall. Aðeins er vika síðan FHL vann Aftureldingu.

Í annarri deild kvenna gerði Einherji 2-2 jafntefli við Hauka í Hafnarfirði. Einherji var kominn 2-0 undir um miðjan fyrri hálfleik en Karólína Dröfn Jónsdóttir lagaði stöðuna á 27. mínútu. Claudia Merino jafnaði á sjöttu mínútu uppbótartíma leiksins. Einherji er um miðja deildina.

Karlalið Hauka spilaði við KFA eystra í annarri deild karla. Markalaust var í hálfleik en Haukar komust yfir á 65. mínútu. KFA snéri hins vegar leiknum sér í vil með þremur mörkum á sjö mínútum undir restina. Marteinn Már Sverrisson skoraði fyrst á 82. mínútu, Eiður Orri Ragnarsson á 87. mínútu og Heiðar Snær Ragnarsson loks á 89. mínútu.

Í þeirri deild gerði Höttur/Huginn 2-2 jafntefli við Völsung á Húsavík. André Musa kom Hetti/Huginn yfir á 16. mínútu en heimaliðið jafnaði skömmu fyrir hálfleik og komst yfir úr vítaspyrnu eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Varamaðurinn Sæbjörn Guðlaugsson jafnaði tíu mínútum fyrir leikslok.

Liðin fylgjast að en skiptust á sætum þar sem KFA er nú komið í 5. sæti en Höttur/Huginn sækir þar á eftir.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar