Fótbolti: FHL komið í sex stiga forustu

FHL er komið með sex stiga forustu á toppi Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu eftir 3-0 sigur á Selfossi um helgina. Í annarri deild kvenna er Einherji á skriði.

Markalaust var hjá FHL og Selfossi í hálfleik en Emma Hawkins kom FHL yfir strax á fjórðu mínútu seinni hálfleiks. Hún skoraði síðan annað mark fimm mínútum fyrir leikslok. Þriðja markið kom í lok leiksins eftir frábæra aukaspyrnu Emmu sem breytti verulega um stefnu af markverði gestanna og skráist því sem sjálfsmark.

FHL er nú með sex stiga forskot á Aftureldingu en það sem meira skiptir er tíu stiga forskot á ÍA og 11 á HK. Þau lið eiga þó leiki til góða.

Í annarri deild kvenna hefur Einherji leikið sex leiki í röð án taps. Liðið vann um helgina Álftanes 3-2. Gestirnir voru þó 0-2 yfir eftir tvö mörk með stuttu millibili á 18. og 20. mínútu. Sú forustvar enn trygg þegar 20 mínútur voru eftir.

Amanda Lind Elmarsdóttir minnkaði muninn á 73. mínútu. Sarai Menchon jafnaði á 77. mínútu og skoraði sigurmarkið á 80. mínútu.

Einheri er í fjórða sæti, skammt á eftir KR og Völsungi. Þrjár umferðir eru nú eftir af venjulegri deildakeppni áður en liðin skiptast í þrennt. Liðin í 1. – 5. sæti spila um möguleikann um að komast upp um deild.

Í annarri deild karla vann KFA sinn þriðja leik í röð er það lagði Kormák/Hvöt 3-0 eystra. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Matheus Gotler skoraði fyrsta markið og Eiður Orri Ragnarsson síðan tvö. KFA er í 3. sæti með 22 stig. Liðið er stigi á eftir Víkingi Ólafsvík sem ekki hefur enn tapað leik.

Höttur/Huginn hefur fjarlægst botnbaráttuna með tvo sigra í röð á liðunum í neðstu sætunum og er nú komið í þéttan pakka liða um miðjan leik, átta stigum frá fallsæti þegar deildin er hálfnuð. Liðið vann Reyni Sandgerði um helgina 0-3. Martim Cardoso skoraði r markið í uppbótartíma fyrri hálfleiks en undir lokin bættu þeir Sæbjörn Guðlaugsson og Víðir Freyr Ívarsson við mörkum.

Spyrnir gerði jafntefli við Hafnir, sem hafa átt góðu gengi að fagna í A-riðli fimmtu deildar og ekki enn tapað leik. Gestirnir missti mann af velli með rautt spjald. Ármann Davíðsson skoraði úr vítaspyrnunni sem dæmd var um leið. Gestirnir jöfnuðu rúmum 20 mínútum síðar og þar við sat.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar