Fótbolti: FHL með áttunda sigurinn í röð

FHL vann sinn áttunda sigur í röð í Lengjudeild kvenna um helgina. Liðið er hársbreidd frá því að fara upp um deild. KFA tapaði mikilvægum leik gegn Víkingi Ólafsvík í toppbaráttu annarrar deildar karla.

FHL spilaði gegn ÍA á Akranesi um helgina og vann 1-3. Samantha Smith skoraði fyrst á 31. mínútu og svo Emma Hawkins á 33. mínútu. Samantha skoraði síðan aftur á 52. mínútu og ÍA átti ekki roð í þriggja marka forustu.

FHL hefur skoraði 40 mörk í deildinni, sem telst framúrskarandi árangur, nærri fjögur mörk í leik. Þá hefur liðið skorað nærri helmingi fleiri mörk en næsta lið sem er HK með 24 mörk. Emma er langmarkahæst í deildinni með 18 mörk og Samantha næst með 10.

FHL er núna með átta stiga forskot á toppi deildarinnar á Aftureldingu, sem er án sigurs í síðustu tveimur leikjum. Þá er liðið með níu stiga forskot á HK í þriðja sæti en HK kemur austur á laugardag en HK er eina liðið sem hefur unnið FHL í sumar.

Einherji í efsta þriðjung


Í annarri deild kvenna er Einherji líka á skriði en liðið hefur leikið átta leiki í röð án ósigurs. Liðið vann um helgina Sindra 4-3 í fjörugum leik á Vopnafirði. Karólína Dröfn Jónsdóttir skoraði fyrst á sjöundu mínútu en Sindri jafnaði á 25. mínútu. Einherji komst yfir tveimur mínútum síðar en aftur jöfnuðu gestirnir úr víti fimm mínútum fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik skoraði Borghildur Arnarsdóttir á 68. mínútu og Sarai Menchon á 88. mínútu áður en Hornafjarðarliðið skoraði sitt þriðja mark í uppbótartíma.

Einherji er í fjórða sæti deildarinnar með 23 stig. Liðið á einn leik eftir, gegn Vestra á Ísafirði, áður en deildin skiptist í þrennt þar sem liðin í 1. -5. sæti leika sín á milli upp á endanlega röð. Sigurinn um helgina þýðir að Einherji verður í þeim hópi.

Tvö mörk í fyrsta leiknum með nýju liði


Í annarri deild karla tapaði KFA fyrir Víkingi Ólafsvík en liðin berjast um annað sæti deildarinnar og rétt í fyrstu deild að ári. Lokatölurnar urðu 2-0 og komu mörkin hvort í sínum hálfleik. Víkingur náði þar með öðru sætinu með 26 stig en KFA er með 22 stig. KFA tryggði sig annars í átta liða úrslit Fótbolti.net bikarsins með 6-0 sigri á Ými í síðustu viku.

Höttur/Huginn vann Þrótt Vogum 4-1 á Vilhjálmsvelli á laugardag. Martim Cardoso kom Hetti/Huginn yfir strax á 9. mínútu en Danilo Milenkovic bætti því næsta við á 26. mínútu. Hann var síðan aftur á ferðinni eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Þetta var hans fyrsti leikur fyrir félagið en hann var áður hjá KFA.

Heiðar Logi Jónsson skoraði fjórða mark heimamanna á 93. mínútu en áður höfðu gestirnir minnkað muninn með marki sem skráð er sem sjálfsmark Ívars Arnbros Þórhallssonar, markvarðar Hattar/Hugins. Liðið er í sjötta sæti með 18 stig.

Í A riðli 5. deildar vann Spyrnir KM 4-0. Ármann Davíðsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks en þeir Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson, Eyþór Alti Árnason og Hilmir Hólm Gissurarson bættu við mörkum í seinni hálfleik.

Úr leik Hattar/Hugins og Þróttar um helgina. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar