Fótbolti: Fjarðabyggð lokaði á Leikni - Myndir
Fjarðabyggð fagnaði sínum fyrsta sigri í sumar þegar liðið vann Leikni 0-1 í Fjarðabyggðarhöllinni í dag. Baráttugleði og gott skipulag skilaði Fjarðabyggð sigrinum. Höttur tapaði á Ísafirði en Einherji vann á Hvolsvelli.
Fá opin marktækifæri voru í leiknum í dag en heilt yfir virtist Fjarðabyggð hafa betra vald á leiknum og því vart annað hægt að segja en að sigurinn hafi verið verðskuldaður. Sigurmarkið kom á 56. mínútu þegar Jón Arnar Barðdal stakk boltanum inn á Christian Puscas sem renndi boltanum í netið.
Jón Arnar átti fínan dag fyrir Fjarðabyggð. Hélt boltanum vel og sendi góðar sendingar á samherja sína sem voru uppistaðan í þeirra helstu færum.
Eftir markið lá Fjarðabyggð til baka og freistaði þess að beita skyndisóknum því Leiknir færi lið sitt framar á völlinn í leik að marki. Tvisvar eða þrisvar sinnum tókst Fjarðabyggð að vinna boltann það framarlega að hægt var að sækja á fáliðaða vörn Leiknis en leikmenn Fjarðabyggðar virtist skorta spretthörku til að nýta þau færi.
Fá opin færi
Vænlegasta sóknin kom tólf mínútum fyrir leikslok þegar Puscas vann boltann við miðlínuna og hafði Hákon Þór Sófusson sér til fulltingis gegn einum Sólmundi Aron Björgólfssyni, varnarmanni Leiknis. Puscas gaf boltann snemma á Hákon, fyrsta snerting hans var slæm og Sólmundur átti frábæra tæklingu sem stöðvaði sóknina.
Sóknarleikur Leiknis byggðist upp á leitinni að Kristófer Viðarssyni en hans var vel gætt. Hann losnaði tvisvar úr gæslu í fyrri hálfleik og átti þá fínar marktilraunir auk eins skots frá vítateigsjaðrinum þegar boltinn varst til hans úr frákasti í seinni hálfleik.
Á lokamínútum reyndist markvörðurinn Sveinn Sigurður Jóhannesson öflugur þegar hann kom út í teiginn og greip fyrirgjafir Leiknismanna.
Fjarðabyggð tapaði heimaleik gegn Huginn í síðustu viku og bikarleik gegn Sindra í miðri viku. Allt annað var að sjá til liðsins í dag heldur en fyrir viku. Meiri ákefð var til staðar og leikmenn þess aðgangsharðir í návígum. Reynslan af fyrstu deildinni virtist líka skila sér þegar halda þurfti fengnum hlut í lokin.
Gerðum það sem við lögðum upp með
„Þetta er allt að koma. Við vissum að það þyrfti að slípa saman liðið og spilið en karakterinn og baráttan var frábær í dag,“ sagði Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar eftir leikinn.
„Við gerðum nákvæmlega það sem við lögðum upp með og höfðum farið vel yfir á æfingu í gær. Við vissum að þeir pressuðu á okkur en myndu skilja eftir ákveðin svæði og þangað settum við boltann oft og sköpuðum okkur þannig færi.“
Hann sagði mikilvægt að landa fyrsta sigrinum. „Vitaskuld í nágrannaslag. Þetta var samt bara annar leikur í deild og það var engin krísa þótt við hefðum tapað gegn Huginn.“
Mættum ekki í seinni hálfleik
Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis, vildi fá meira út úr sínu liði í seinni hálfleik. „Ég var virkilega ánægður með fyrri hálfleik. Leikurinn var í jafnvægi og það sem við gerðum gekk vel. En við mættum ekki í leikinn í byrjun seinni hálfleiks, þeir skoruðu og duttu til baka.
Eftir það varð þetta að dæmigerðum leik þar sem annað liðið skorar og nær svo að halda. Það var erfitt að brjóta afturliggjandi vörn Fjarðabyggðar niður en mér fannst við eiga að geta gert betur. Ég geri kröfur til míns liðs.“
Það er samt ekki óeðlilegt að nýliðarnir þurfi tíma til að aðlagast deildinni. Leiknir tefldi líka fram nýjum miðverði, Antonio Arvalo eftir að Daninn Jonas Westmark var látinn fara.
„Hann var ekki í því standi sem við héldum að hann væri og þá var ekki annað en gera en fá annan í standi. Ég er sáttur við hópinn núna, ég er kominn með 18-20 manna hóp og það er samkeppni innan hans sem var ekki í vetur. Ég geri mér vel grein fyrir að það getur tekið 4-5 liðið að slíka liðið saman með nýjum leikmönnum.“
Skoraði sjálfsmark og fékk rautt
Höttur tapaði fyrir Vestra á Ísafirði í annarri deild 2-0. Mörkin komu um miðjan fyrri hálfleik og var það seinna sjálfsmark sem Jordan Farahani skoraði. Hann fékk beint rautt spjald fyrir grófa tæklingu fimm mínútum fyrir leikslok.
Einherji gerði góða ferð á Hvolsvöll og vann KFR 1-2. Heimamenn voru yfir í hálfleik en Todor Hristov skoraði bæði mörk Einherja í seinni hálfleik.
Huginn tekur á móti Grindavík á Fellavelli á mánudag.