Fótbolti: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir áfram efst
Nýliðar Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í fyrstu deild kvenna í knattspyrnu eru efstar í deildinni eftir fyrstu tvær umferðirnar og Linli Tu markahæst í deildinni. Spyrnir vann sinn fyrsta leik í Íslandsmótinu þegar liðið snéri aftur til keppni þar eftir fjórtán ára fjarveru.Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir mætti Augnabliki á á laugardag. Hin kínverska Linli Tu, sem skoraði þrennu í fyrsta leik, skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri. Hið fyrra kom á 27. mínútu en hið seinna á 73. mínútu.
Spyrnir spilaði í Íslandsmótinu sumarið 2008 og síðan ekki meir þar til á föstudagskvöld að Máni frá Hornafirði kom í heimsókn á föstudagskvöld. Tveir leikmenn sem spiluðu síðasta leikinn fyrir 14 árum voru í hóp hjá Spyrni, Jörgen Sveinn Þorvaðarson kom inn á um helgina en Östein Gjerde var á bekknum allan tímann.
Þór Albertsson skoraði fyrsta mark Spyrnis á 33. mínútu en Bjarki Sólón Daníelsson bætti við á 63. og 75. mínútu í 3-0 sigri.
Boltafélag Norðfjarðar lék sinn fyrsta leik í Íslandsmóti þegar Einherji kom í heimsókn á fimmtudagskvöld. Leikurinn fór vel af stað fyrir heimaliðið því Víkingur Pálmason skoraði úr vítaspyrnu strax á fimmtu mínútu.
Síðan súrnaði staða BN. Stefan Balev jafnaði fyrir Vopnfirðinga á 21. mínútu, Alejandro Barce bætti við öðru marki á 40. mínútu, Helgi Már Jónsson á 60. mínútu og Ruben Menéndez á 81.
Bæði austanliðin í annarri deild karla töpuðu sínum leikjum. Höttur/Huginn heima gegn Þrótti Reykjavík, 0-2. Fyrra markið kom úr víti á 77. mínútu, hið seinna í uppbótartíma. KFA tapaði fyrir Haukum í Hafnarfirði 1-0 með marki sem skorað var strax á sjöundu mínútu.