Fótbolti: Fyrsti sigur kvennaliðs Einherja í sumar

Kvennalið Einherja vann sinn fyrsta sigur í sumar þegar liðið lagði Fram á Vopnafjarðarvelli á laugardag. Tvö austfirsk lið eru áfram efst í sínum deildum.

Það var Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir sem skoraði eina mark leiks Einherja og Fram á 39. mínútu. Ólöf Ragnarsdóttir, leikmaður Fram, fékk síðan rauða spjaldið þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir vann Sindra 4-0 í Fjarðabyggðarhöllinni á fimmtudag. Hafdís Ágústdóttir skoraði strax á þriðju mínútu og Freyja Karín Þorvarðardóttir bætti við öðru á 27. mínútu. Þriðja markið skoraði Marta Saez á 63. mínútu en síðasta markið var sjálfsmark á 86. mínútu.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er í efsta sæti annarrar deildar kvenna með fullt hús stiga, 21 stig úr sjö leikjum en Einherji er í tíunda sæti með fimm stig úr sex leikjum.

Höttur/Huginn er komið með fjögurra stiga forskot á toppi þriðju deildar karla eftir leiki helgarinnar. Liðið lagði Dalvík/Reyni á útivelli síðasta fimmtudag. Stefan Spasic skoraði eina markið á 36. mínútu. Gestirnir voru mann færri frá 64. mínútu þegar Arnar Eide Guðjónsson fékk rautt spjald fyrir tvö gul á þremur mínútum.

Einherji tapaði 2-0 fyrir Sindra um helgina. Einherji er í 9. sæti deildarinnar með sjö stig.

Fjarðabyggð tók á móti Haukum í annarri deild karla og tapaði 1-4. Staðan var jöfn í hálfleik eftir að gestirnir höfðu komist yfir á fyrstu mínútu en Marinó Máni Atlason jafnað á 45. mínútu.

Leiknir tapaði 3-2 fyrir Magna á Grenivík. Heimamenn komust yfir á 25. mínútu en Leiknir jafnaði með sjálfsmarki á þeirri fertugustu. Magni komst yfir aftur með marki úr víti strax á annarri mínútu seinni hálfleiks og bætti við öðru marki kortéri síðar. Hilmar Freyr Bjartþórsson minnkaði muninn undir lokin.

Fjarðabyggð er í 11. sæti deildarinnar með fjögur stig en Leiknir í því tíunda með níu stig.

Mynd: UMF Einherji

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.