Fótbolti: Gefumst ekki upp fyrr en tölfræðin segir annað
Höttur og Huginn eru í fallsæti annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir leiki helgarinnar. Þjálfari Hattar var ósáttur við leik liðsins þegar það tapaði 1-3 fyrir Þrótti Vogum á Vilhjálmsvelli á laugardag.Gestirnir úr Vogum fóru með góða stöðu, 0-2 inn í hálfleik. Höttur var meira með boltann og reyndi að sækja í seinni hálfleik en skapaði sér takmörkuð marktækifæri.
Þróttarar nýttu tækifærið til að beita skyndisóknum og skoruðu þriðja markið úr einni slíkri þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir. Miroslav Babic minnkaði muninn fyrir Hött með marki úr vítaspyrnu á 89. mínútu.
Úrslit úr öðrum leikjum þýddu að með ósigrinum fór Höttur í næst neðsta sæti deildarinnar með 14 stig, stigi á eftir Tindastóli og tveimur stigum frá Leikni Fáskrúðsfirði.
„Öll liðin eiga fjóra leiki eftir en við eigum trúlega erfiðustu leikina. Við gefumst þó ekki upp fyrr en við erum tölfræðilega fallnir,“ sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Hattar eftir leikinn.
„Ég er mjög svekktur með leik okkar. Aðgerðir okkar sérstaklega á síðasta þriðjungi vallarins gengu illa. Þróttur var betra liðið og verðskuldaði að vinna.
Við spiluðum ekki jafn vel og í síðustu leikjum, en þannig hefur sumarið verið. Sumir leikir okkar hafa verið fínir en aðrir afleitir, eins og í dag.“
Ekkert austfirsku liðanna í deildinni náði stigi um helgina. Leiknir tapaði 0-1 fyrir Kára á heimavelli og Fjarðabyggð, sem er á lygnum sjó um miðja deild, tapaði 2-1 á útivelli fyrir Víði í Garði. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir Víði sem komst í 20 stig og reif sig þannig frá fallslagnum.
Fátt virðist geta bjargað Huginn frá falli en liðið er á botninum með níu stig. Það tapaði 4-0 fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ á laugardag.
Einherji tapaði fyrir Álftanesi 0-2 á heimavell í annarri deild karla en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir lá 0-8 fyrir Tindastól í gær.