Fótbolti: Höttur/Huginn og Einherji með mikilvæga sigra í fallbaráttunni – Myndir
Höttur/Huginn og Einherji unnu í gær mikilvæga sigra í fallbaráttu þriðju deildar karla í knattspyrnu. Hvorugt liðið er þó óhult enn. Leikni Fáskrúðsfirði er í verulega erfiðum málum í fyrstu deildinni.Höttur/Huginn tók á móti KFG úr Garðabæ á blautum Fellavelli í gær og vann 2-1. Gestirnir skoruðu eftir kortérs leik og voru 1-0 yfir í hálfleik. Brynjar Árnason jafnaði á þriðju mínútu seinni hálfleiks og Jesus Perez kom Hetti í 2-1 úr vítaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik.
Eftir það hafði heimaliðið ágæt tök á leiknum og heldur betri færi, þótt þau væru ekki mörg. Eitt rautt spjald fór á loft í uppbótartíma. Þórhallur Kári Knútsson, leikmaður KFG ákvað að hrinda Knut Erik Mykleburst þótt dómarinn löngu genginn á milli þeirra til að róa þá niður.
„Við gerðum ekki það sem við ætluðum okkur að gera í byrjun en unnum okkur svo inn í leikinn. Í hálfleik ræddum við að við yrðum að vera ákveðnari. Þeir voru að fá færi og skora markið sitt því við vorum ekki ákveðnir.
Við komum mjög sterkir inn í seinni hálfleikinn, skoruðum strax og svo aftur. Eftir það fannst mér sigurinn aldrei í hættu. Ég taldi okkur betra lið en KFG ef við værum ákveðnir bæði sóknarlega og varnarlega og það sannaðist. Ég er því mjög sáttur við leik minna manna,“ sagði Viðar Jónsson, þjálfari Hattar/Hugins eftir leikinn.
Undir liðinu komið
Staða Hattar/Hugins fyrir tveimur umferðum, eftir að liðið tapaði 2-4 heima fyrir Ægi, virtist svört. Um síðustu helgi vann liðið Vængi Júpíters í miklum fallbaráttuslag og nú KFG. Tveir sigrar í röð hafa skilað liðinu í 9. sæti með 21 stig. Liðið hefur tveggja stiga forskot á Vængina, sem eiga leik inni og er jafnt Ægi að markahlutfalli. Fimm stig eru niður í Álftanes, sem Höttur/Huginn sækir heim um næstu helgi auk þess sem Ægir í Þorlákshöfn er síðasti leikurinn.
„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur. Þegar fimm leikir voru eftir ætluðum við í hvern leik til að vinna hann. Nú vitum við að þetta er í okkar höndum því við eigum eftir að spila við liðin í kringum okkur. Við ætlum að taka þrjú stig í næsta leik og tryggja okkur í þessari deild,“ sagði Viðar.
Einherji ekki hólpinn
Deildin er enn jöfn og þótt það sé langsótt eru skammt fyrir ofan fyrrnefnd fallbaráttulið nokkur lið sem gætu dregist inn í hana. Tveimur stigum fyrir ofan Hött/Huginn er Einherji, sem í gær vann Sindra 3-1. Eftir gærdaginn skilja tvö stig að Einherja og Sindra, sem er jafn Tindastóli og Elliða að stigum. Sindri mætir Hetti á Héraði í næstu síðustu umferðinni.
Todor Hristov kom Einherja yfir eftir rúman hálftíma og rétt fyrir leikhlé skoraði Sigurður Donys Sigurðsson úr vítaspyrnu. Sindramenn minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik en hinn ungu Tómas Atli Björgvinsson skoraði þriðja markið kortéri fyrir leikslok. Í uppbótartíma fékk Dilyan Kolev sitt annað gula spjald fyrir tæklingu.
Einherji mætir Ægi á útvelli um helgina, tekur svo á móti Tindastóli áður en tímabilinu lýkur gegn KV á útivelli. Sigur Hattar/Hugins á KFG í gær hafði þau áhrif að KV og Reynir Sandgerði eru komin upp úr deildinni.
Leiknir í vondri stöðu
Í Lengjudeild karla er Leiknir Fáskrúðsfirði í verulega vondum málum eftir 0-7 tap á heimavelli á þriðjudag. Liðið var fyrir leikinn í þriðja neðsta sætinu, eftir að hafa komist upp fyrir Þrótt Reykjavík á markahlutfalli um helgina þrátt fyrir að hafa tapað 2-4 fyrir Víkingi Ólafsvík.
Nú er Leiknir hins vegar í neðsta sætinu á markahlutfall, jafnt Þrótti og Magna Grenivík að stigum. Leiknir á eftir að leika gegn Keflavík og Grindavík, sem bæði eru í baráttu um að fara upp, á útivelli en ÍBV á heimavelli.