Fótbolti: Höttur/Huginn úr leik í bikarnum

Höttur/Huginn er úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 1-3 tap fyrir Ægi úr Þorlákshöfn í 32ja liða úrslitum keppninnar á Fellavelli í gærkvöldi.

Höttur/Huginn komst yfir strax á níundu mínútu þegar Rafael skoraði úr víti. Gestirnir jöfnuðu eftir rúman hálftíma og komust yfir snemma í seinni hálfleik. Föst leikatriði reyndust varnarmönnum Hattar/Hugins erfið eins og stundum fyrr.

Höttur fékk fín færi til að jafna og minnst í tvífang varði markvörður Ægis frábærlega. Þriðja mark gestanna kom svo fjórum mínútum fyrir leikslok.

Á mánudagskvöld vann BN Mána 5-2 í fjórðu deild karla á Norðfjarðarvelli. Dagur Þór Hjartarson kom BN yfir strax á þriðju mínútu, Filip Sakaluk skoraði annað á 33. mínútu og loks Víkingur Pálmason það þriðja eftir kortér í seinni hálfleik.

Fjögur mörk, tvö frá hvoru liði komu á 11 mínútna kafla í seinni hálfleik. Hákon Jónsson skoraði fyrst fyrir BN á 70. mínútu en Ingi Þór Sigurðsson setti tvö fyrir gestina áður en Filip Sakaluk skoraði fimmta mark BN og það síðasta í leiknum. Er þetta fyrsti sigur í sögu BN í Íslandsmóti.

Austfirsku kvennaliðin spila bæði á morgun. Einherji fær Gróttu í heimsókn meðan Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir heimsækir Grindavík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar