Fótbolti: Höttur/Huginn var liðið sem lagði KFA

Knattspyrnufélag Austfjarða tapaði sínum fyrsta deildarleik í sumar þegar liðið varð undir 2-1 gegn Hetti/Huginn á Vilhjálmsvelli á laugardag. FHL lagði Augnablik í ótrúlegum leik þar sem ellefu mörk voru skoruð. Kvennalið Einherja er komið í þétta toppbaráttu eftir sex sigurleiki í röð.

Það var Eiður Orri Ragnarsson sem kom Hetti/Huginn yfir á 15. mínútu og Matheus Bettio Gotler skoraði annað mark fjórum mínútum síðar. Bæði lið fengu sín færi áður en William Suarez minnkaði muninn á 78. mínútu þannig í hönd fóru spennandi lokamínútur.

Höttur/Huginn hélt þó forustunni og var þar með fyrsta liðið til að leggja KFA í deildinni í sumar. KFA er samt enn efst í deildinni með 31 stig úr 16 leikjum. Á eftir er þéttur pakki, Dalvík/Reynir er með 29 stig en ÍR í 6. sæti er með 25 stig.

Þar hafa fram að þessu verið skil í deildinni en Höttur/Huginn er nú í 7. sæti með 23 stig. Fimm stig eru síðan niður í Fjallabyggð í 9. sæti þar sem fallbaráttan byrjar fyrir alvöru en liðin við botninn hafa sótt stig að undanförnu.

Höttur/Huginn er því ekki enn laust við fallhættuna en á mikilvægan leik við Sindra á Höfn á miðvikudagskvöld en Hornafjarðarliðið er næst neðst. Á sömu slóðum er Völsungur sem á sama tíma spilar við KFA eystra.

KFA komst annars í síðustu viku í undanúrslit Fotbolti.net bikarsins með 1-2 sigri á Víkingi Ólafsvík á útivelli. Ivan Rodrio og William Suárez skoruðu mörk KFA.

Tímabilið að klárast hjá Spyrni


Í fimmtu deild karla tapaði Spyrnir sínum fimmta leik í röð þegar liðið mætti KFR á Hvolsvelli. Staðan var 2-0 í hálfleik, Valgeir Jökull Brynjarsson minnkaði muninn á 58. mínútu. KFR komst í 3-1 á 79. mínútu en Ívar Logi Jóhannsson minnkaði aftur muninn með marki á 82. mínútu.

Spyrnir var því enn inni í leiknum þegar fjórða mark KFR kom í uppbótartíma. Spyrnir er í 6. sæti B-riðils með 19 stig eftir 14 leiki. Tveir leikir eru eftir af keppninni.

Ellefu mörk í Kópavogi


FHL lagði Augnablik 5-6 í Kópavogi í Lengjudeild kvenna um helgina. Markafjöldinn segir ekki nema hálfa söguna því FHL var tvisvar sinnum í leiknum komið í afar vond mál, eiginlega með tapaðan leik.

Liðið var 3-0 undir eftir hálftíma leik en Jóhanna Lind Stefánsdóttir og Natalie Cooke minnkuðu muninn í 3-2 rétt fyrir leikhlé. Björg Gunnlaugsdóttir jafnaði síðan strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.

Augnablik kemst aftur yfir, í 5-3, þegar 72. mínútur eru liðnar af leiknum. Sofia Lewis minnkaði muninn á 82. mínútu og Natalie jafnaði á 88. mínútu úr vítaspyrnu. Hún skoraði síðan sigurmarkið á 90. mínútu. FHL með 15 stig úr 14 leikjum og sleit sig frá fallsvæðinu með sigrinum.

Sjötti sigur Einherja


Í annarri deild kvenna hefur Einherji flogið upp í þétta toppbaráttu með sex sigrum í röð. Liðið er í 5. sæti með 27 stig en aðeins munar þremur stigum á liðunum í öðru og áttunda sæti.

Sjötti sigurinn vannst á Haukum á Vopnafirði í gær en Hafnafjarðarliðið hefur verið í hópi efstu liðanna í sumar. Gestirnir komust yfir á áttundu mínútu en Claudia Maria Daga Meriono jafnaði á 25. mínútu og Violeta Mitul kom Einherja yfir á 31. mínútur. Claudia skoraði síðan tvö mörk snemma í seinni hálfleik áður en Haukar minnkuðu muninn úr víti á 78. mínútu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.