Fótbolti: Huginn í bestu stöðunni af austfirsku liðunum
Það var mikið undir þegar að Leiknir Fáskrúðsfirði fékk Huginn í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina á laugardag. Bæði lið voru í fallsæti fyrir leikinn en Leiknir þó í verri málum með fjórum stigum minna en Huginn.
Bráðskemmtilegur fyrri hálfleikur
Huginn byrjaði leikinn mun betur og var í stórsókn fyrsta korterið. Fyrir það uppskar liðið mark þegar að Stefan Spasic skallaði inn aukaspyrnu Marko Nikolic.
Það var síðan aðeins gegn gangi leiksins þegar að Kristófer Páll Viðarson jafnaði leikinn 1-1 úr vítaspyrnu.
Við markið efldust heimamenn töluvert og náðu þeir að komast yfir með huggulegum skalla Andres Salas Trenas.
Tvö mörk Rúnar Freys Þórhallssonar á síðustu fimm mínútum hálfleiksins snéri stöðunni við og var því staðan 2-3 þegar að dómari leiksins flautaði bráðskemmtilegan hálfleik af.
Huginn refsar fljótt
Seinni hálfleikur var einungis nokkra mínútna gamall þegar að fyrirliði Hugins, Birkir Pálsson, skoraði framherjamark af bestu gerð þegar hann fylgdi á eftir aukaspyrnu Marko Nikolic, en markmaður Leiknis hefði átt að gera betur í að halda henni.
Seinni hálfleikur var ekki alveg jafn skemmtilegur og sá fyrri og Huginn gerðu vel í að sigla sigrinum í höfn.
Það hjálpaði þeim vissulega að Salas Trenas lét reka sig útaf með því að ná sér í tvö mjög heimskuleg gul spjöld á tveimur mínútum þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum. Svo ef það var einhver von fyrir Leikni að komast inní leikinn þá hvarf hún með þessum aulaskap.
Hvað þýða úrslit helgarinnar?
Sú staðreynd að Fjarðabyggð tapaði gegn Þór 3-1 þýðir einfaldlega að Huginn eru komnir upp fyrir er í níunda sæti með nítján stig.
Fjarðabyggð tekur við ellefta sætinu af Huginn með sautján stig og Leiknir sem svo sannarlega hefur ekki unnið í hinu svokallaða „útlendingalottói, “ þrátt fyrir mikil miðakaup, er neðst í deildinni með tólf stig og þarf kraftaverk (eða að minnsta kosti þrjá sigra) til að halda sér uppi, þegar að fjórar umferðir eru eftir af mótinu.
Það er svo HK sem er í tíunda sæti með átjan stig, mitt á milli Hugins og Fjarðabyggðar.
Síðustu leikir félaganna þriggja:
Huginn:
Keflavík (H)
Leiknir R (Ú)
HK (H)
Selfoss (Ú)
Fjarðabyggð:
Grindavík (Ú)
KA (H)
Fram (Ú)
Haukar (H)
Leiknir F:
Þór (H)
Keflavík (Ú)
Leiknir R (H)
HK (Ú)
Það er vonandi að Austfirðingar mæti vel á síðustu leiki þessara félaga og hjálpist við að halda sem flestum liðum áfram í fyrstu deildinni í knattspyrnu.