Fótbolti: Jafntefli kvennaliðanna í miklum baráttuleik - Myndir
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir og Einherji gerðu 1-1 jafntefli í fyrsta leik sínum í fyrstu deild kvenna á þessari leiktíð á Fellavelli í gærkvöldi. Fátt var um opin færi í miklum baráttuleik.
Mikil barátta einkenndi leikinn og var það á kostnað þess að leikurinn flyti almennilega.
Það var þó ekki gegn gangi leiksins Barbara Kopacsi skoraði fyrsta markið á 39. mínútu. Barbara sá að markvörður Hattar stóð framarlega og lúðraði boltanum af 40 metrum yfir markmanninn, var það eina mark fyrri hálfleiks.
Jafnað úr víti
Seinni hálfleikur einkenndist af áframhaldandi baráttu og voru færin ekki mörg en Einherji komst nálægt því að skora þegar að aukaspyrna þeirra endaði í slánni. Heimastelpur náðu naumlega að bjarga frákastinu í horn.
Á 80. mínútu leiksins komust Hattar stelpur í ágæta skyndisókn upp vinstri kantinn þar sem að leikmaður þeirra var hlaupinni niður inní teig og víti dæmt. Elísabet Eir Hjálmarsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi framhjá Evu Margréti Árnadóttir í marki Einherja.
Klafs, tæklingar og stöðubarátta einkenndi síðustu 10 mínútur leiksins en ekkert mark var skorað og niðurstaðan því 1-1 jafntefli. Það telst líklega nokkuð sanngjörn niðurstaða þó að Einherja stelpur muni án vafa pirra sig á að hafa ekki haldið út aðeins lengur.
Óhress með úrslit og dómgæslu
Karítas Anja Magnadóttir fyrirliði Einherja var að mestu sátt við spilamennsku leikmanna sinna og að þær hafi haldið fókus út leikinn en fannst þó uppskeran rýr þegar Austurfrétt ræddi við hana í leikslok.
Aðspurð hvort að það væru ekki sterk úrslit að ná í stig á útivelli gegn sameinuðu liði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis taldi hún svo ekki vera .
Karítas var heldur ekki sátt með dómgæsluna sem að hún sagði oft á köflum hafa verið ósanngjarna.